Flug með börn

01.09.2004

Ég er að fara í flug með mánaðagamalt barn frá Reykjavík til Ísafjarðar. Hvað get ég gert til þess að hún fái ekki hellur? Ég hef heyrt alls kyns ráð eins og t.d. að gefa henni brjóst í flugtaki, láta bómull fyrir eyrun og þykka húfu yfir og halda svo þétt að eyrunum og svo hef ég heyrt að það sé gott að setja plastglös yfir bæði eyrun. Hefur þú eitthver önnur ráð fyrir mig eða get ég notað eitthvað af ofantöldu?

Með fyrirfram þökk.

....................................................................

Komdu sæl, og takk fyrir að senda okkur fyrirspurn.

Það er yfirleitt auðvelt að ferðast með ungbörn flugleiðis því þau sofa oftast nær alla leiðina en það er eðlilegt að þú veltir fyrir þér, hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að barnið fái hellu fyrir eyrun. Við fullorðna fólkið, sem höfum upplifað það vitum hvað það getur verið hvimleitt og
valdið okkur mismiklum óþægindum en stundum sársauka. Það hefur gagnast vel að gefa barni að drekka, annað hvort brjóst eða pela, bæði í flugtaki og þegar vélin lækkar flugið. Við það að vera sífellt að kyngja jafnast þrýstingurinn sitt hvorum megin við hljóðhimnurnar og hella
myndast síður fyrir eyrun. Varðandi hin ráðin, sem þér hafa verið gefin veit ég ekki um gagnsemi af en efast um bómullina og þykka húfu en hef heyrt um að glös við eyrun geri gagn. Ég ímynda mér þó að erfitt geti verið að halda glösum þétt að höfði barnsins alla leiðina eða í flugtaki og lendingu.

Vona, að ferðin vestur gangi vel hjá ykkur!

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
1. september 2004.