Fyrirburaeinkenni

26.09.2006

Sæl!

Er til eitthvað sem heitir fyrirburaeinkenni? Stelpan mín fæddist 5 vikum fyrir tímann, og mér skildist að hún rétt næði því að kallast fyrirburi. Um daginn var ég spurð að því hvort hún hefði þessi týpísku fyrirburaeinkenni eins og að sofa illa og vera alltaf á ferðinni?  Eru einhver fleiri einkenni? Takk fyrir góðan vef.

Kveðja, næstum fyrirburamamma.


Komdu sæl, næstum fyrirburamamma!

Barn sem fæðist fyrir 37 vikna meðgöngu telst vera fyrirburi. Þannig, að barnið þitt, sem fæddist eftir 35 vikna meðgöngu, telst vera fyrirburi. Fyrirburar hafa ýmis útlitseinkenni við fæðingu t.d. þau, að höfuðið er stórt í hlutfalli við búkinn og andlitssvipur þeirra viðist oft áhyggjufullur. Einnig eru höfuðmótin stærri og höfuðbeinin mjúk. Húð mikilla fyrirbura er rauð og það vantar fitulagið undir húðina auk þess sem líkaminn er þakinn mjúkum hárum sem kallast „lanugo“. Útlimirnir eru líka grannir, neglurnar mjúkar og kviðurinn er stór. Þessi týpísku fyrirburaeinkenni, sem þú nefnir lúta fremur að hegðun og/eða þroska þeirra. Það hafa verið gerðar margar rannsóknir á fyrirburum sem lúta að þroska þeirra og heilsufari, en flestar þeirra hafa verið gerðar á „miklum“ fyrirburum eins og  þeim, sem fæðast fyrir 30 vikna meðgöngu eða þeim, sem fæðast léttari en 1500 grömm. Þar hefur komið í ljós vísbending um aukna tilhneigingu til ADHD eða athyglisbrests og/eða ofvirkni, við nokkurra ára aldur. Þú nefnir ekki, hvað dóttir þín er gömul en ég geri ráð fyrir að það sé fylgst vel með þroska hennar í ungbarnaverndinni, sérstaklega þar sem hún er fædd aðeins fyrir tímann. Ef þú hefur einhverjar áhyggjur varðandi þroska hennar eða hegðun ættir þú að tala um þær við fagfólkið, sem fylgir ykkur eftir í ungbarnaverndinni og það metur síðan hvort og hvernig ástæða sé til að bregðast við þeim. Gangi ykkur vel.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. september 2006.