Spurt og svarað

12. október 2006

Gæruskinn

Ég vil byrja á að þakka fyrir frábæran vef.

Það sem ég hef áhuga á að spyrja um er hvort ekki sé í lagi að láta nýfædd börn sofa á gæruskinni? Ég hef nefnilega bæði lesið um það að það sé mjög gott að börn liggi á gæruskinni og geti hjálpað þeim að vera vær og svo var ég núna síðast að lesa að ekki ætti að láta börn sofa á gæruskinni! Hvort er rétt?

Kveðja, Hildur.


Komdu sæl, Hildur!

Já, það er með þetta eins og svo margt annað í umhverfi okkar, að mönnum ber ekki saman um, hvað sé réttast eða heilsusamlegast að gera, við hinar ýmsu aðstæður. Það getur líka skipt máli, hvar við erum stödd á jarðarkringlunni, hvernig við metum það. Ég veit til þess, að gæruskinn er mikið notað erlendis undir ungabörn til að sofa á, þar sem húsakynni eru ekki eins og hlý og hér á landi og gólfkuldi er viðvarandi.  Gæruskinn er náttúruafurð og ullin er talin vera einangrandi gegn kulda og þess vegna mjög hlý. Mér er ókunnugt um, hvort sútunin eða hreinsunin á gærunni skilji eftir sig einhver efni, sem er óæskilegt að nýfætt barn andi að sér ef það liggur á henni. Það sem þyrfti helst að varast ef gæra er notuð, er að barnið feli ekki andlitið
í gærunni svo það hindri ekki öndun þess eða frítt aðgengi andrúmsloftsins að vitum barnsins. Einnig þarf að varast að barninu verði ekki of heitt. Síðan þarf að hugsa um hreinsun á gærunni, þar sem á henni eru löng hár, sem safna í sig ryki og óhreinindum og ekki hægt að skella henni í þvottavél. Annars þarft þú sjálf að meta út frá þínum aðstæðum og því, sem þú hefur verið að lesa, hvaða rök þú telur sterkust með og á móti notkun gæru undir nýfædd börn.

Vona, að þú komist að niðurstöðu með þetta.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. október 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.