Gönguviðbragð nýbura

06.03.2007

Heyrði nýlega rætt um að það væri æskilegt að gangviðbragði nýbura væri haldið við.  Þessar upplýsingar koma víst frá Dönskum barnalæknum (skv. einni sem átti í DK).  Þetta var í fyrsta skipti sem ég heyri talað um að halda þessu viðbragði við og ég myndi gjarnan vilja fá frekari upplýsingar um málið þar sem ég hef hingað til bara heyrt um að börn ættu ekki að fá að standa of snemma í fæturna sjálf því þá yrðu þau kiðfætt eða hjólbeinótt.

Vil samt taka það fram að þegar dóttir mín fór í 5 daga skoðun lét barnalæknirinn hana ganga á þennan hátt sem lýst er.


Góðann daginn


 

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki heyrt þetta fyrr og fann ekkert um þetta við leit á netinu.  Þetta viðbragð er til staðar fyrstu 4 mánuðina en er samt ekki það sama og að ganga.  Börnin standa ekki í fæturnar heldur gerist þetta við það að ilin kemur við eitthvað undirlag.  Það hefur hingað til verið talið eðlilegt að þetta viðbragð hverfi og seinna læri börnin svo að ganga.  Börnum finnst hinsvegar gaman að standa í fæturnar allt frá nokkurra vikna aldri og verða mjög stolt af sjálfum sér þegar þau finna að þau geta það - það myndast breitt bros á andlitum þeirra.  Það er allt í lagi að leyfa börnum að spreyta sig þannig í nokkrar sekúntur, þetta er þeim eðlilegt.  Það að þau verði kiðfætt eða hjólbeinótt held ég að sé gömul trú sem hefur ekki við neitt að styðjast.  Börnin gera ekki meira en þau geta, þegar þau verða þreytt lyppast þau niður og auðvitað fá þau stuðning mömmu og pabba á meðan þau reyna að standa.  Ég vil samt taka það fram að ég er að tala um að þau standi í fangi á fullorðinni manneskju en ekki í göngugrind eða öðru þessháttar því það getur jú haft áhrif á þroska fótleggjanna.

Barnalæknar athuga þetta viðbragð í 5 daga skoðuninni til að vita hvort allt er í lagi með barnið því ef öll viðbrögð starfa rétt er það merki um heilbrigði barnsins.

Bestu kveðjur

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
06.03.2007.