Grænar hægðir hjá 6 vikna barni

11.05.2005

Barnið mitt er orðið 6 vikna og er allt í einu komin með svo grænar hægðir.  Þegar hún var nýfædd var ég að berjast við brjóstagjöfina og ljósan sagði að ef hægðirnar yrðu grænar væri hún ekki að fá nóg.  Nú fær hún ábót einu sinni á dag (60 ml) og virðist vera sátt þess á milli.
Annars finn ég að ég hef nóg handa henni fram undir kvöldmat. Þá er eins og allt sé búið og ábótina fær hún svo rétt eftir kvöldmat.  Geta grænar hægðir núna stafað af einhverju öðru en of lítilli næringu?  Getur það sem ég borða haft áhrif á lit hægða?  Hún hefur haft í maganum og því tók ég á það ráð að gefa henni seyði frá Einari Loga grasalækni og hún virðist vera miklu betri, sefur betur, getur þetta haft áhrif á litinn?  Einnig hefur borið á mjög miklu illa lyktandi slími frá endaþarmi, annað hvort fagurgrænt eða nánast glært, hvað getur það verið? þetta er það mikið að þetta kemur eftir rembing eins og þegar hún kúkar. Svo er hún ansi löt við að klára úr brjóstinu,  þegar flæðið minnkar þá nennir hún ekki meir og sofnar bara á brjóstinu en vaknar alltaf þegar hún er tekin af vill halda áfram, en þegar lítið kemur þá fer hún að bíta saman og toga brjóstið aftur, frekar vont og hún mjög óþolinmóð.  Hvað get ég gert til að fá hana til að sjúga lengur?

Takk fyrir í bili.

.........................................................................


Sæl og blessuð.

Það verða oft nokkuð skarpar breytingar  á hægðum barna um 6 vikna aldurinn. Þær breyta lit, þéttleika og/eða tíðni. Almenna reglan er að ef barn er að þrífast vel þá skiptir engu máli hvernig hægðirnar eru á litinn. Eins og þér hefur sjálfri dottið í hug þá getur þetta tengst mataræði þínu, grasaseyðinu ofl. Illa lyktandi hægðir tengjast beint ábótinni og ég gæti trúað að henni færi að líða betur ef þú slepptir henni og gæfir meiri skiptigjöf á kvöldin. Það er heldur ekki samræmi í að segja að barn fái ekki nóg en að það sé latt að sjúga vel úr brjóstinu. Hegðunin sem þú lýsir bendir frekar til að of vel fari um hana í gjöfinni. Taktu af henni teppið í gjöfinni eða sængina. Taktu hana úr fötunum, opnaði gluggann, lækkaðu í ofninum. Börnum sem er of heitt nenna ekki að sjúga. Ef þér finnst henni ganga þetta samt illa myndi ég ráðleggja þér að nota brjóstakreistun markvisst til að „troða” meiri mjólk ofan í hana á styttri tíma. Hún myndi þá væntanlega sjúga betur og í lengri tíma en hún gerir núna.

Með von um að þetta hjálpi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. maí 2005.