Grænar hægðir og þurrmjólk

14.05.2013
Sæl
Stelpan mín er 4,5 mánaða gömul og hefur verið á þurrmjólkur ábót frá fæðingu, var með jákvætt Coombs próf. Ég hef verið að gefa henni Nan1, þá sömu og er á sængurdeildinni. Þegar hún varð 14 vikna hafnaði hún endanlega brjóstinu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir að hvetja hana áfram. Hún á ekki í vandræðum með að losa hægðir en hún hefur daglega hægðir og hún þyngist vel.
Hvernig er eðlilegur litur á hægðum hjá þurrmjólkurbarni? Stundum er að koma hjá henni dálitlar ljós-mosagrænar hægðir með dökk-mosagrænni slikju.
Bestu kveðjur, Helen
Sæl Helen
Samkvæmt erlendum heimildum eru grænleitar hægðir algengar og eðlilegar hjá börnum sem fá þurrmjólk. Það er talið stafa af öðruvísi meltingarstarfsemi en þegar móðurmjólkin fer í gegnum meltingarveginn, þó geta grænleitar hægðir líka verið eðlilegar hjá börnum sem eingöngu eru á brjósti. Talið er að járninnihald þurrmjólkurinnar hafi áhrif á lit hægðanna. Það eru 0.41 mg/100 ml af járni í Nan 1 og í stoðmjólk sem er talað um fyrir börn eldri en sex mánaða er magn járns 0.75 mg/100 ml.
Grænar, þunnar, endurteknar og illalyktandi hægðir geta verið merki um sýkingu.
Ef stúlkan þín er hraust, þyngist vel og hefur reglulega hægðir þarft þú ekki að hafa áhyggjur þó grænu hægðirnar komi öðru hverju.


Með ósk um gott sumar
Margrét Unnur Sigtryggsdóttir
Hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir
14. maí 2013