Grætur upp úr svefni

16.01.2015

Sælar verið þið og takk fyrir góðan vef. Ég er með nokkrar spurningar varðandi rúmlega þriggja mánaða son minn. Í mánuð núna er hann búinn að vera að gráta eða kvarta upp úr svefni, hvort sem það er í daglúrum (inni eða úti) eða á nóttunni. Í nótt grét hann/kvartaði t.d. ellefu sinnum frá kl 23:30 til kl 6 í morgun. Stundum kemur þetta í kjölfarið á einhverjum rembing. Á daginn sefur hann ekki nema 30-40mín áður en hann byrjar á þessu litla skinnið. Ég er orðin alveg afskaplega þreytt á að ná ekki nema að meðaltali klst. löngum dúrum á nóttu og sambýlismaðurinn minn einnig. Mestu áhyggjurnar hef ég samt af því að litli drengurinn sé kannski ekki að hvílast nóg. Stundum dugar bara að snúa honum á hina hliðina, lagfæra sængina eða skipta henni út fyrir teppi, færa hann hærra í vögguna, gefa honum snuð eða klappa honum e-ð. Hann er að drekka einu sinni að nóttu, svona á milli kl 4 og 6, það er misjafnt. Hann var greindur með bakflæði rétt áður en þetta tímabil hófst og hefur verið að fá gaviscon, 5ml tvisvar á dag samkvæmt læknisráði. Dettur ykkur eitthvað í hug sem gæti verið að hrjá barnið mitt? Eruð þið með einhver ráð fyrir mig? Ef þetta er tanntaka; er eitthvað sem ég get gert til að lina þjáningar hans svo við náum öll að hvílast eitthvað? Ég á bókaðan tíma hjá barnalækni eftir tvær vikur en það er ekkert hlaupið að því að komast þangað svona þegar maður býr úti á landi. Ég veit ekkert yndislegra en son minn og það að vera móðir en þetta ástand er orðið svolítið hvimleitt. Bestu kveðjur, Þreytta mamman


Komdu sæl þreytta mamma, ég varð að stytta bréf þitt til að koma því fyrir. Miðað við lýsingu þína þá er vandinn að sá stutti vaknar upp þegar hann sefur hvort sem er á nóttu eða degi. Hann virðist samt ekki hafa verki þar sem oft er nóg að snúa honum eða gefa snuð. Ég held að þú getir útilokað tanntöku því að þá væri hann ekki betri þegar hann er vakandi. Það virðist vera að hann fái einhver óþægindi þegar hann liggur útaf og þá er algengast vökvi í eyrum. Ég veit að það er búið að kíkja í eyrun en þó að hann hafi ekki eyrnabólgu er möguleiki að hafa vökva og þá myndast þrýstingur og óþægindi þegar maður liggur. Ég mundi ráðleggja þér að láta útiloka það. Eins leiðinlegt og það er að segja það þá eru alltaf til börn sem eru óróleg í svefni og engin skýring finnst.
Gangi ykkur vel.


Bestu kveðjur
Áslaug Valsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
16. jan. 2015