Spurt og svarað

12. desember 2012

EGG - bernaise og sörur

Góðan dag og takk fyrir frábæran vef.
Er komin 20 vikur en af einhverjum ástæðum fór það alveg framhjá mér að ég mætti ekki borða neitt með hráum eggjum. Er búin að lesa mér mikið til um matarræði og passað allt gríðarlega vel þannig að nú er ég í töluverðu áfalli yfir þessu öllu saman því ég hef borðað töluvert magn af bernaise sósu og núna síðustu vikuna þó nokkrar sörur. Svo ég spyr hverjar afleiðingarnar af þessu eru og eru þessir hlutir, áaamt heimagerðum ís, alfarið á bannlista? Með fyrirfram þökk :)
Sæl!
Eggjaumræðan er alltaf áberandi í kringum jól, þá aðallega í sambandi við jólaísinn.
Á meðgöngu er mælt með að forðast neyslu hrárra eggja vegna hættu á salmonella sýkingu.

Þegar kremið á sörur er lagað á að hita saman sykur og vatn í  116°c og hella saman við eggjarauðurnar. Við þetta „eldast“ eggjarauðurnar og hættan á salmonella sýkingu minnkar. Þannig að þetta ætti að vera allt í lagi ef þessi aðferð hefur verið notuð, hinsvegar er öruggast að nota gerilsneiddar eggjarauður. Þær er t.d. hægt að kaupa í Fjarðarkaupum og Hagkaup og ef til vill á fleiri stöðum.
Okkur barst ábending frá barnshafandi konu um uppskrift þar sem ekki eru notaðar hráar eggjarauður, hér er slóðin.

Varðandi bernaise sósuna þarft þú ekki að hafa áhyggjur ef sósan hefur verið úr pakka en ef hún er löguð frá grunni eru eggjarauðurnar þeyttar yfir heitu vatnsbaði og „eldast“ þar af leiðandi.

Þegar ís er gerður heima eru eggjarauður venjulega þeyttar með sykri og blandað við þeyttan rjóma. Blandan er ekki hituð og því „eldast“ eggjarauðurnar ekki. Öruggast er því að nota gerilsneiddar eggjarauður.

Vona að þessi matreiðslufræðsla komi þér sem fleirum að gagni, nú er um að gera að njóta þess að borða sörur og jólaís áhyggjulaust!

Til frekari upplýsinga vil ég benda á fréttina "Nú líður að jólum" hér á síðunniþar sem hægt er að lesa svör við nokkrum fyrirspurnum um jólamatinn.


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. Desember 2012


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.