Gult og illa lyktandi piss

14.01.2015

Ég er með einn 9 vikna gutta sem er á 50- 50 brjósti og þurrmjólk (SMA). Hann drekkur  vel og þyngist eðlilega, en núna síðustu 2-3 vikurnar hef ég lent 3-4 sinnum í því að halda það að næturbleian innihaldi mikið magn af kúk af lyktinni að dæma, en svo þegar ég tek bleiuna af er ekkert í henni nema GULT piss,(engin kúkur) og það lyktar mjög illa. Í þessi fáu skipti sem þetta hefur gerst er þetta bara í næturbleiunni og svo er allt í góðu yfir daginn, semsagt ekki gult og illa lyktandi piss, hann er líka svolítið rauður fremst á typpinu, er þetta alveg eðlilegt?

 

Sæl og blessuð og  til hamingju með þann stutta. Mér dettur í hug að þessa daga sem þetta gerist hafi hann ef til vill drukkið fulllítið og þvagið því orðið gult og með sterkri lykt. Almennt ef að fólk fær nægan vökva er þvagið ljóst og lyktarlítið,  það á bæði við um börn og fullorðna. Það kemur ekki fram í bréfinu frá þér hvort að mikið þvag sé í bleiunni.  Ef að mjög mikið þvag er í bleiunni og heldur lengra hefur liðið milli skiptinga en venjulega getur það einnig skýrt vonda lykt. Þegar vond lykt er af þvagi getur það bent til þvagfærasýkingar en þar sem hann er bara svona einstöku sinnum og ekki á daginn þykir mér það harla ólíklegt. Ef þú ert ekki búin að fara í 9 vikna skoðun getur þú sýnt hjúkrunarfræðingi þar typpið á honum og látið meta það.

Bestu kveðjur
Áslaug Valsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
14. jan. 2015