Spurt og svarað

14. júní 2005

Hægðatregða af þurrmjólk

Sælar ljósmæður og takk fyrir frábæran vef.

Ég er í hálfgerðum vandræðum með mánaðargamla dóttur mína. Hún fæddist mánuði fyrir tímann og þurfti að vera á vökudeild í 10 daga og nærðist eingöngu á sondu fyrstu dagana og svo á pela. Hún hefur ekkert tekið brjóstið og gerir það ekki enn, en ég hef verið að mjólka mig og gefið henni þá mjólk. En nú er mjólkin farin að minnka rosalega hjá mér og ég neyddist til að gefa henni þurrmjólk. Ég byrjaði á að gefa henni SMA þurrmjólk, nema það að hún fékk rosalega hægðatregðu af henni og var alltaf að rembast og rembast en aldrei kom neitt og fylgdi því mikill grátur í kjölfarið. Ljósmóðir mín benti mér á að prufa nursoy þurrmjólkina og er hún búin að vera á henni í 4 daga og hefur skánað aðeins en er samt ennþá mikið að rembast en ekki eins mikill grátur með. Ég var búin að prufa maltextrakt en mér var ráðlagt að bíða með það þar til hún er orðin stærri en hún er ekki nema 2600 gr núna. Eruð þið með einhver ráð fyrir mig? Gæti það hjálpað að gefa henni annaðhvort soðið vatn kannski einu sinni á dag eða jafnvel sykurvatn? Eða þarf ég bara að gefa þessu lengri tíma?

Kveðja.

............................................................................... 

Sæl og blessuð!

Mér finnst það ansi snemmt að mjólkin sé farin að minnka svona mikið að þú þurfir að gefa ábót sem þurfti ekki áður. Það er bara komin mánaðarreynsla á mjaltir. Þú þarft auðvitað að passa þig að fara nógu oft í mjaltavélina. Að minnsta kosti x 8 á sólarhring á meðan það framleiðist lítið. Öll aukaörvun er af hinu góða t.d. kreista út nokkra dropa í baði o.s.frv. Þú þarft líka að passa mjög vel að aldrei líði meira en 6 klst. milli mjalta. Ég held þú ættir snarlega að hætta þessari ábótargjöf sem fer svona illa í barnið þitt. Notaðu líka barnið til að fá aukaörvun. Gefðu mjólkina þína með fínni slöngu sem liggur fram á vörtuna þannig að barnið verði að sjúga hana til að fá eitthvað. Ef vantar upp á að barnið fái það magn móðurmjólkur sem það þarf þá þýðir það einfaldlega að þú þurfir að mjólka þig oftar til að ná meira magni. Og aldrei láta þér detta í hug vatn eða sykurvatn. Það er löngu, löngu úrelt. Ef þér gengur alls ekki að auka mjólkina þína þá notarðu þurrmjólk.

Með baráttukveðjum,

Katrín Edda Magnsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
14. júní 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.