Spurt og svarað

09. september 2013

Hægðatregða vegna vökvaskorts hjá 8 mánaða - uppfært!

Góðan dag og takk fyrir hjálplega síðu.
Ég á rúmlega 8 mánaða strák sem er enn á brjósti og vill ekki drekka neitt annað. Hann hefur aldrei tekið pela því ég þurfti aldrei á því að halda. En nú líður að því að ég fari að vinna og því hafði ég hugsað mér að minnka brjóstagjöfina í takt við það. Eftir að hann byrjaði að borða um 6 mánaða hefur mjólkin í brjóstunum á mér minnkað mjög mikið en vandamálið er að hann er ekki að taka inn neinn annan vökva (nema náttúrulega úr grautum/mauki). Ég er búin að reyna allt, eyða mörg þúsund krónum í mismunandi pela og stútkönnur, rör og glös en ekkert virkar. Pabbi hans og amma eru líka búin að vera með hann í lengri og styttri tíma en hann drekkur ekkert frekar hjá þeim. Ég hef aldrei vitað annað eins, hann snýr sér eins langt í burtu og hann getur þegar maður reynir að bjóða honum eitthvað. Í 6 mánaða skoðuninni gerði hjúkrunarfræðingurinn lítið úr áhyggjunum mínum, og í 8 mánaða skoðuninni sagði hún líka bara að "hann myndi læra á þetta á endanum". Ég veit bara ekki hvað ég á að gera lengur. Hann er með svo mikla hægðatregðu, og ég veit að það er ekki útaf matnum því ég er búin að gefa honum sveskjumauk, ávexti sem eru losandi, hafragraut, maltextract, hveitiklíð. Hann rembist bara og rembist og það koma bara lítil dökkbrún spörð. Hann er orðinn rauður og sár í rassinum og ég vorkenni honum svo mikið. Ég er búin að reyna að ná mjólkinni upp hjá mér en það gengur ekki vel, hann er að fá varla sem nemur 2 fullum gjöfum á dag (á morgnana), hin skiptin fær hann rétt bara til að seðja mesta þorstann og svo nennir hann ekki að sjúga meira því það kemur svo lítið. Á ég bara að bíða og vona að hann taki stútkönnu á endanum? Á ég að gista annarsstaðar og láta pabbann pína hann með pela?
Með von um hjálp.
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina, það eru mjög líklega fleiri mæður sem hafa staðið í sömu sporum og þú.
Sólahrings vökvaþörf  barna innan 2 ára aldurs er um það bil 100 ml fyrir hvert kíló líkamsþunga. Miðað við lýsingu þín á hægðunum hans er hann trúlega að fá of lítinn vökva og til þess að koma á móts við þrjóskuna í honum varðandi stútkönnurnar þá væri kannski best að auka vökvann í grautnum hjá honum, setja inn góðar olíur t.d. hörfræ eða kókosolíu, smjör (ósalt) út á matinn og halda áfram með sveskjur og rúsínur. Sniðugt væri að kaupa ávaxtanet sem þú getur sett safaríka ávexti í og hann dúllast við það sjálfur. Reyndu að forðast að gefa honum fæðu sem er stemmandi.
Það væri gott fyrir hann að fylgjast með öðrum börnum drekka úr könnum eða glasi. Líklega mun hann frekar læra það frá öðrum en þér, þar sem þrjóskan virðist spila einhver þátt í þessu og því ráðlegg ég þér að bíða með það að flytja að heiman næturlangt þangað til þú ætlar að hætta með hann á brjóstinu.

Vonandi hjálpar þetta þér.

Okkur hefur borist góð ábending varðandi þessa fyrirspurn!
Það gæti virkað að nota stóra plastsprautu úr apóteki til að sprauta smá mjólk uppí barnið. Eftir smá tíma gæti barnið farið að sjúga mjólkina úr sprautunni og í kjölfarið e.t.v. tekið stútkönnu.Kveðja,
Margrét Unnur,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
9. september 2013
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.