Spurt og svarað

13. ágúst 2006

Handahreyfingar og pirringur

Góðan dag

Ég á dóttur sem er 5 vikna. Hún er alltaf öll á iði þegar hún er sofandi
eða alveg að sofna. Hendurnar eru út um allt og mikið í andlitinu á henni.  Þetta truflar hana mikið á daginn, hún sofnar yfirleitt á brjóstinu
og þegar ég legg hana frá mér eru hendurnar komnar á fullt og hún vöknuð aftur eftir nokkrar mínútur (nær í mestalagi 5 mín. lúrum). Hún
semsagt sefur ekkert yfir dagin og er orðin frekar pirruð á kvöldin og á
erfitt með að slaka á fyrir svefninn, er öll á iði og sperrir sig mikið. En
svo sefur hún alveg á nóttuni. Sofnar alltaf kl 22 og sefur til kl 9-10
(er að vakna 1-2 yfir nóttina til að drekka). Ein ljósmóðir sagði mér að
reyfa hana inn í teppi þannig að hún gæti ekki hreyft hendurnar og að það myndi róa hana, en þetta ráð virkaði alveg öfugt á dóttur mína, hún verður alveg brjáluð ef hendurnar eru fastar. Hvað get ég gert til að hún nái góðum svefni yfir daginn og verði rólegri?
Ég er að gefa henni miniform dropa því hjúkrunarfræðingurinn sem kom heim taldi að hún væri bara svona pirruð yfir lofti í maganum en það er ekkert að virka.
Komdu sæl og til hamingju með dótturina


Það er svolítið erfitt að meta í gegnum fyrirspurnina, hvað það er, sem
truflar dóttur þína á daginn og yfirleitt er erfitt að stjórna svefni hjá
svona ungu barni. Talið er, að um sex vikna aldur þurfi ungabörn u.þ.b. 16 klst. svefn að meðaltali, á sólarhring. Eftir því sem þú lýsir nær dóttir
þín allt að 12 klst. svefni yfir nóttina. Þú talar ekki um að hún gráti með
þessum handahreyfingum, sem er jákvætt og þér finnst þetta aðallega koma fyrir á daginn, þegar hún er um það bil að sofna. Læt hérna fljóta með nokkrar spurningar til hugleiðingar og sem þú getur rætt við
hjúkrunarfræðinginn í ungbarnaverndinni. Hvernig þyngist hún? Er hún búin að drekka nóg þegar þú leggur hana niður? Lætur þú hana ropa eftir gjafir? Hvernig eru hægðirnar? Hefur þú prófað að halda í aðra höndina á henni á meðan hún er að drekka eða haldið í báðar, þegar þú hefur lagt hana niður og hún er að sofna? Þú gætir t.d. prófað að láta hana ekki sofna á brjóstinu heldur reist hana upp til að ropa, þegar þú sérð, að hún er að sofna og látið hana svo halda áfram að drekka eftir ropann, tvisvar til þrisvar í hverri gjöf. Við það myndi hún líklega drekka meira í einu og e.t.v. sofa lengur en í fimm mínútur í einu.
Ef þetta breytist ekkert á næstunni hefur þú alltaf aðgang að hjúkrunarfræðingi og lækni í ungbarnaverndinni þinni og ræddu þetta endilega við þau. Held ekki að þetta þurfi að vera neitt óeðlilegt hjá barninu svo framarlega sem hún vex og þroskast eðlilega.

Gangi ykkur vel,
kveðja

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
13.08.2006.>

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.