Spurt og svarað

03. febrúar 2006

Heimsóknir til nýfæddra barna

Sælar og takk fyrir frábæran vef uppfullan af fróðleik sem gott er að geta leitað í.

Ég á von á mínu fyrsta barni innan tíðar og langar svo að spyrja út í heimsóknir fyrst á eftir, þá aðallega heimsóknir ungra barna. Ég hef heyrt að gott sé að takmarka heimsóknir sérstaklega frá leikskólabörnum og sérstaklega á veturna. Í tengslum við þetta eru ýmsir vírusar og bakteríusýkingar nefndir svo sem RS og streptokokkasýkingar sem jú vissulega eru algengari yfir vetrartímann, en ég finn ekkert haldbært um þetta efni.
Á maður að banna/takmarka börn fyrst um sinn og þá hversu lengi og hvaða aldur, eða er það bara paranoja?

Bestu kveðjur Febrúarbumba

......................................

Komdu sæl, febrúarbumba

Það er eðlilegt að takmarka heimsóknir barna á leikskólaaldri til nýbura ef þau eru kvefuð, sérstaklega ef það er á þeim árstíma (oft eftir áramót), sem RS vírusinn er að ganga.  Fullorðið fólk getur líka smitast af honum og borið hann í börn, en fullorðnir verða oft ekki eins mikið kvefaðir og krakkarnir. Kvefaðir einstaklingar (fullorðnir eða börn) ættu ekki að vera að kyssa eða kjá ofan í nýfædd börn. RS vírusinn getur smitast með snertismiti og getur vírusinn lifað í fatnaði eða snýtuklútum í nokkrar klst.  Hreinlæti og handþvottur er því mjög mikilvægur, þegar hann er annars vegar og snýtubréfi ætti umsvifalaust að henda í ruslið eftir notkun og þvo hendurnar í kjölfarið.  Fyrirburar, léttburar og/eða börn með hina ýmsu sjúkdóma eða fæðingagalla eru viðkvæmust fyrir þessum vírus þ.e. hann leggst þyngst á þau og getur leitt til sjúkrahúsinnlagnar þeirra. Eftir því sem börnin eldast verður ónæmiskerfi þeirra öflugra og ráða þau því betur við hinar ýmsu sýkingar en til þess að virkja kerfið þurfa börnin að umgangast eða vera innan um annað fólk og önnur börn.
Til að reyna að fyrirbyggja að nýfædd börn, upp að þriggja mánaða aldri
smitist, ætti veikur einstaklingur, kvefaður eða með aðrar pestir t.d. hálsbólgu ekki að vera í  náinni snertingu við barnið. Best er að treysta á eigin dómgreind í þessu tilliti. Vert er líka að hafa í huga, að brjóstagjöf er einnig góð forvörn gengn veikindum, fyrir hið nýfædda barn.

Gangi ykkur vel!

kveðja

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
03.02.2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.