Spurt og svarað

11. júlí 2008

Heimsóknir, leikskólabörn og fjölskylduboð með ungbarn

Sælar og kærar þakkir fyrir frábæran vef!

Mig langar að vita hvaða rökum ég geti beitt fyrir því að ég vilji ekki fá leikskólabörn í heimsókn ennþá, en ég á 2 vikna gamalt barn. Ég er margsinnis búin að segja að það sé ekki æskilegt að leikskólabörn séu að heimsækja ungbörn upp á smithættu, en það virðist ekki skila árangri (fólk mætir bara) og ég fæ að heyra úr ýmsum áttum að ég sé bara með „paranoju“ og að drengurinn minn hafi bara gott af því að aðrir séu með hann og að það styrki bara ónæmiskerfið hans. Ég á líka erfitt með að leyfa gestum að taka hann í fangið og kássast í honum (ég vil að fólk þvoi sér um hendurnar fyrst).

Þetta sama á við um að fara með hann í heimsóknir (afmæli, ættarmót og fjölskylduboð). En mér líður mjög illa þegar það eru of margir í kringum okkur. Ég er orðin svo uppgefin af því að segja endalaust að við kíkjum í heimsókn seinna þegar hann er orðinn aðeins stærri. Mér finnst stöðugt verið að þrýsta á mig og gera lítið úr skoðunum og tilfinningum mínum. Mér er sagt að ég þurfi nú bara að slaka aðeins á og að við höfum nú bara gott af því að komast út á meðal fólks. Mér er farið að líða mjög illa yfir þessu því mér finnst svo leiðinlegt að þurfa alltaf að verja mig. Það er eins og ég þurfi stöðugt að afsaka skoðanir mínar eins og ég sé eitthvað afbrigðileg og ég er alveg að gefast upp, langar bara að fara í felur með barnið mitt. Ég er svo þreytt og oftast langar mig bara til þess að vera heima.

Er algengt að vera á flakki með svona lítil börn innan um múg og margmenni og hefur þetta breyst með að fá leikskólabörn í heimsókn? Eru skoðanir mínar bara úreltar?

Þreytta, þreytta hænumamman.


Sælar!

Þetta er allt rétt sem þú ert að segja við þína fjölskyldu og vini. Við ráðleggjum einmitt öllum foreldrum að forðast margmenni fyrstu vikurnar og einnig að barnið komi ekki nálægt veiku fólki fyrstu mánuðina vegna þess að ónæmiskerfi barnsins er að þroskast og eflast fyrstu mánuðina. Börn á brjósti fá mótefni frá móður sinni með móðurmjólkinni en þau eru fyrstu mánuðina að þróa sitt ónæmiskerfi, þau fæðast með lítil mótefni. Handþvottur er besta fyrirbyggingin gegn sýkingum - svo það er mjög gott að fólk venji sig á að það að þvo hendur áður en það snertir barnið.

Gangi þér vel.

Bestu kveðjur,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. júlí 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.