Herpes smit til barna

07.10.2008

Sælar góðu konur.

Mig vantar svo smá hjálp. Þannig er mál með vexti að ég er með kynfæraherpes og smitaðist af því áður en ég eignaðist mitt fyrsta barn. Ég upplýsti ljósmóður og lækna um þetta á meðgöngunni sem og í fæðingunni sjálfri. Meðganga og fæðing gengu mjög vel og ég var einkennalaus þegar að fæðingu kom og fæddi barnið mitt á eðlilegan hátt. Ég var búin að vera smituð í stuttan tíma þegar ég varð ófrísk og las mér einhverstaðar til um það sárin kæmu oftar fyrstu ár eftir smit en svo færi að líða lengra á milli. Ég þoli þetta alveg sjálf og læt sárin ekki trufla mig mikið. Hinsvegar er ég í stöðugum ótta um að smita barnið mitt, sem er nokkurra mánaða gamalt, og vakna upp á næturnar ef ég er með sár til að þvo mér og setja á mig handspritt því ég er svo hrædd um að hafa snert sár í svefni án þess að vita af því. Getið þið sagt mér hvað ég get gert til að forðast það að smita barnið mitt af þessum sjúkdómi, ráðleggið þið mér að nota hanska þegar ég skipti á barninu á meðan ég er með sár? Vitið þið hvort það er algengt að foreldrar smiti börnin sín? Ég las erlenda heima síðu með upplýsingum um sjúkdóminn en fann ekki miklar upplýsingar um það sem mig vantar svör við.

Með ósk um svör og góðar þakkir til ykkar fyrir frábæra þjónustu.


Sæl og blessuð!

Góður handþvottur og handsprittun er besta leiðin til að forðast smit. Það ætti ekki að vera þörf á því að nota hanska ef þú bara hefur það sem reglu að þvo þér um hendurnar, sprittar þær og lætur sprittið þorna á höndunum áður en þú snertir barnið.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
7. október 2008.