Spurt og svarað

24. apríl 2006

Höfuðlag ungbarna

Mér hefur verið sagt að best sé að láta ungbarn sofa á sitt hvorri hliðinni til skiptis til að koma í veg fyrir að það fái flatann hnakka.  Ég er hins vegar búin að lesa öll svör vefsins um svefnstellingar og finn þar einungis eindregin rök með því að láta barnið sofa á bakinu til að minnka líkur vöggudauða.  Það eru náttúrulega meiri líkur á að barnið rúlli yfir á magann ef það liggur á hliðinni.  En er eitthvað til í því að börn sem sofi alltaf á bakinu fái ekki eins fallegt höfuðlag?


Komdu sæl!

Það er rétt hjá þér, að nú er mælt með því að ungbörn sofi á bakinu til að minnka líkur á vöggudauða. Höfuðbein ungbarna eru ekki vaxin föst saman, heldur geta gengið inn undir hvert annað í fæðingunni og mótast þannig eftir fæðingarveginum til að höfuðið geti fæðst. Mótunin á höfðinu breytist svo aftur á fyrstu dögunum eftir fæðingu til fyrra horfs. Þar sem höfuð ungbarna stækkar með aldrinum og höfuðbeinamótin lokast ekki fyrr en á öðru ári eða síðar, getur höfuðlag þeirra mótast af sömu legustellingu í langan tíma.

Þess vegna m.a. var áður fyrr mælt með því að skipta sífellt um hliðar, þegar barnið var lagt til svefns til að höfuðið mótaðist ekki skakkt. Enda þótt það skekktist eitthvað, jafnaði það sig oft með aldrinum. Það getur líka gerst, að barn fái flatan hnakka af langvarandi baklegu, einkum ef barnið hefur ekki tilhneigingu til að leggja annan hvorn vangann við undirlagið, þegar það sefur en flest ungabörn, sem sofa á bakinu snúa höfðinu til hliðar á meðan. Það er svo aftur á móti einstaklingsbundið, hvað við köllum fallegt höfuðlag.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
24. apríl 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.