Hörfræolía

24.10.2012
Sælar
Hver er ykkar skoðun á því að gefa börnum, sex mánaða og eldri, hörfræolíu við hægðatregðu? Með kærri kveðju og þökkum fyrir afar gagnlegan vef.Sæl
Það er oft talað um að setja hörfræolíu inn í mataræði hjá þeim börnum sem eru að byrja að borða t.d. hjá þeim sem fá grauta. Það er mjög einstaklingsbundið hvernig meltingarstarfsemin þolir breytinguna og auðvitað fer það aðeins eftir því hve breytingarnar eru hraðar. Sum börn fá hægðatregðu og því mikilvægara að bæta olíu inn í þeirra mataræði til þess að hægðalosun verði ekki óþægileg og þau verði hrædd við þá athöfn.
Hörfræolía er góð uppspretta fitusýra. Um það bil 70% eru fjölómettaðar fitusýrur, 18% einómettaðar fitusýrur og 9 % mettaðar fitusýrur. Um það bil 55% fitusýranna í hörfræolíu eru omega- 3 og alpha-linolenic acid (ALA). ALA eru mikilvægar byggingareiningar í frumuhimnum. Ég finn engar rannsóknir sem sýna fram á að hörfræolía sé skaðleg börnum og sýnt hefur verið fram á öryggi þar sem tekinn var skammtur sem innihélt 200 mg ALA í 3 mánuði. Samkvæmt þeirri rannsókn ættu 1-2 teskeiðar á dag að vera örugg fyrir þau börn sem fá hægðatregðu.
Öll þurfum við að fá fitu og auðvelt er að nálgast góðar vörur sem henta börnum, lýsið sem flest íslensk börn fá gefur okkur góðar fitusýrur sem skortir oft í löndum þar sem sólin er af skornum skammti og íslenska smjörið inniheldur góðar fitutegundir. Ekki má gleyma fitunni í brjóstamjólkinni sem þau börn sem ennþá eru á brjósti fá.

Vona að þetta svar hjálpi þér.
Margrét Unnur Sigtryggsdóttir,
Hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
24. október 2012.