Hormónabólur

23.09.2006

Ég er með eina 6 vikna sem hefur fengið hormónabólurnar í andlitið, eins og eðlilegt er. Aftur á móti spyr ég hvort það sé eðlilegt að húðin verði mjög þurr samhliða bólunum? Kinnarnar á henni eru alveg rosalega þurrar og einnig eyrun en engar bólur eru þar. Á eyrunum er þurrkurinn gulur sem ég tel vera gröft. Af hverju getur sú sýking stafað? Á ég að bera eitthvað á hana til varnar þurrkinum og hvað telur þá þá vera besta kremið? Ráðleggur þú okkur frekar að nota ólífuolíu í baðið frekar en baðolíu sem keypt er hjá BabySam?

Með fyrirfram þökk, áhyggjufull móðir.


Komdu sæl!

Eins og þú nefnir eru hormónabólur eðlilegt fyrirbæri, sem hverfa af sjálfu sér á tiltölulega stuttum tíma. Hef ekki orðið vör við mikinn þurrk í húðinni samhliða bólunum en AD salva mætti prófa við honum. Þegar um er að ræða húð barna eða einhver vandamál tengd henni er alltaf best að láta fagaðila líta á húðina og meta hana til að fá viðeigandi ráðleggingar, því það er ómögulegt að greina, hvort um vandamál eða sjúkdóma er að ræða í gegnum tölvusamskipti. Sem dæmi, gæti dóttir þín hugsanlega verið að þróa með sér barnaexem, sem e.t.v. þyrfti meðhöndlun með vægu sterakremi eða þróa með sér húðsýkingu, sem þyrfti e.t.v. meðhöndlun með bakteríudrepandi kremi.

Það eru læknar sem ákveða eða ráðleggja slíka meðhöndlun eftir að hafa skoðað og metið húðina með berum augum. Held, það skipti ekki máli hvora olíuna þú notar í baðið en sápa er ónauðsynleg fyrsta árið þar sem hún getur valdið þurrki í húðinni. Einfaldast er að leita til heilsugæslunnar með svona mál og ungbarnaverndin er ykkur ætíð aðgengileg.

Gangi ykkur vel.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
23. september 2006.