Spurt og svarað

26. nóvember 2008

Hreinlæti með þriðja barn

Sælar ljósmæður!

 

Nú var ég að koma heim af fæðingardeildinni með þriðja barnið mitt og hef mikið verið að spá í hreinlætið. Ég er með eitt barn í leikskóla og annað í fyrsta bekk í grunnskóla. Nú er ég frekar of stíf á hreinlætinu heldur en ekki þannig að ég er að velta fyrir mér hversu mikið er nóg?  Lumið þið á einhverjum "reglum" fyrir mig þannig að ég geti verið nokkuð örugg með krílið án þess að gera alla vitlausa í kringum mig með of miklum hreinlætiskröfum? Það sem ég er að spá í t.d. er:varðandi handþvottinn - er t.d. eðlilegt að þriggja ára barn(systkini) þvoi sér alltaf sérstaklega áður en það klappar krílinu (við hin gerum það alltaf) - og við áður en við tökum það upp?  Vinir eldri barnanna - hvaða kröfur á að gera þar - á að takmarka heimsóknir svona fyrst um sinn og eiga þeir kannski ekkert að vera að kássast í krílinu yfir höfuð fyrr en það er eldra?  Hvenær má barnið fara með að sækja í leikskólann og í annað fjölmenni, s.s. matvörubúðir og þá hvenær má fara að skilja sprittið eftir heima og handfjatla barnið beint eftir að hafa verið á leikskóla eða í matvörubúðinni?  Er eðlilegt að skipta um föt á eldri börnunum þegar þau koma heim úr leikskóla/skóla og hversu lengi þá ef svo er?  Er nóg að biðja fólk sem kemur í heimsókn um að þvo sér um hendurnar áður en það tekur krílið eða þarf að spritta líka?  Er einhver sérstakur viðmiðunaraldur þegar maður getur hætt öllum þessum aukahandþvotti í kringum krílið (þá er ég ekki að tala um eftir bleijuskipti og fyrir brjóstagjöf)?.  Eruð þið með fleiri atriði sem skipta máli?  Ég veit að þetta er dálítið mikið en ég væri voða þakklát fyrir einhver svör - mér finnst ég svo óörugg með þetta allt saman og finnst erfitt að sameina þessa miklu ábyrgð á heilsu krílisins og eðlilegt heimilislíf.

 

Bestu kveðjur, þriggja barna mamman

 

 


Komdu sæl

 

Það er rétt að þetta með hreinlætið verður erfiðara eftir því sem börnunum fjölgar.  Ónæmiskerfi ungbarna er viðkvæmt sérstaklega fyrstu þrjá mánuðina og þá er gott að verja þau eftir bestu getu en þó þannig að allir haldi geðheilsunni.  

Gullna reglan er að láta alla sem koma inn á heimilið þvo sér um hendur, bæði heimilisfólk og gesti en það er kannski of mikið að þvo sér aftur rétt áður en barnið er snert.  Sápa er sótthreinsandi og því ætti að vera nóg að þvo sér en gott að hafa sprittið ef maður kemst ekki í vask.

Þetta með að skipta um föt er kannski of erfitt eins og þú segir sjálf, meira stúss og meiri þvottur en kannski frekar langsótt að litla barnið smitist af fötum hinna barnanna ef þau þvo sér vel um hendur.  Bakteríur lifa almennt ekki lengi á fötum.

Önnur góð regla er að biðja þá sem vilja koma í heimsókn en eru kvefaðir eða með hósta að koma seinna.  Vinir hinna barnanna þurfa kannski ekki að vera að kyssa barnið eða kjassa en sysktkini ættu að kyssa á enni eða höfuð en ekki við munn eða nef.

Ráðlagt er að fara ekki með nýfætt barn í fjölmenni fyrstu þrjá mánuðina, en ef þarf að fara með það eins og t.d. að sækja í leikskólann þá má láta það bíða afsíðis og í stólnum/vagninum þannig að fólk geti kíkt á það en þarf ekki að snerta barnið.

 

Kveðja og gangi ykkur vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
26. nóvember 2008

 

 

 

 

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.