Hundar, ofnæmi og nýburar

26.03.2006

Halló!

Ég var að velta því fyrir mér hvort barnið mitt sem kemur i heiminn í maí muni hafa ofnæmi fyrir hundinum á heimilinu. Er það rétt hjá mér að ef maður er með hund í kringum sig á meðgöngu þá eru minni líkur á að barnið verði með ofnæmi? Hef smá áhyggjur af þessu af því ég á svo yndislegan hund.

Takk fyrir frábæra síðu.

 


 

Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Því hefur löngum verið haldið fram að umgengni við dýr auki líkur á ofnæmi en nýlegar rannsóknir sýna fram á að þessu er öfugt farið, þ.e. að umgengi við gæludýr minnkar frekar líkur á ofnæmi, exemi og jafnvel astma. Mér er ekki kunnugt um að það minnki líkur á ofnæmi fyrir barnið ef hundur er á heimili þess á meðgöngu.

Samkvæmt þessum rannsóknum ættir þú ekki að hafa áhyggjur af því að litla barnið þitt fái ofnæmi þó að hundur sé á heimilinu, heldur þvert á móti eru líkurnar minni.

Vona að þessar upplýsingar kæti ykkur og minnki hjá þér áhyggjur.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. mars 2006.

 

Heimild: Dr.Greene.Com