Hvað er Coombspróf ?

12.01.2005

Hvað er Coombspróf sem framkvæmt er á börnum eftir fæðingu og hvað mælir það?

Takk kærlega fyrir góða og aðgengilega síðu.

............................................................................


Sæl og takk fyrir að senda okkur fyrirspurn.

Þegar gert er Coombspróf á naflastrengsblóði nýbura er verið að leita að mótefnamyndun í blóði nýburans. Þessi rannsókn er einkum gerð á naflastrengsblóði ef blóðflokkur móður er Rhesus mínus. Ef niðurstaða Coombsprófs er neikvæð (neg.) þýðir það að ekki hafi greinst nein mótefni og það er gott.

Á sama tíma er einnig gerð blóðflokkun til að greina í hvaða blóðflokki nýburinn er í og hvort blóðflokkurinn er Rhesus plús eða mínus. Ef barnið er í Rhesus plús blóðflokki þarf að gefa móður sprautu (anti-D) innan 72 tíma frá fæðingu sem dregur úr líkum á að vandamál vegna blóðflokkamisræmis skapist á næstu meðgöngu.

Vona að þetta svari spurningunni.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. janúar 2005.