Spurt og svarað

08. ágúst 2005

Hvenær má barn sitja í kerru?

Sæl og takk fyrir góðan vef!

Ég var að velta því fyrir mér hvenær væri í lagi að setja barn í kerru. Við erum að fara erlendis og það vær gott að hafa kerru með á flugvellinum. Við eigu svona Craccco kerru með stillanlegu baki. Var bara að veltu þessu fyrir mér vegna út af bakinu hvort að það væri nægur stuðningur og hvenær má fara að prófa sig áfram að sitja í stól, þá svona barnastól við borð.

............................................................................

Komdu sæl, og takk fyrir að leita til okkar!

Afsakaðu seinaganginn við að fá svar við fyrirspurninni. Börn læra að sitja á tímabilinu frá 4 mánaða aldri, þegar þau geta farið að sitja upprétt með góðum stuðningi við bakið að 8 mánaða aldri, þegar flest eru farin að sitja óstudd. Áður en þau læra að sitja þurfa þau að vera farin að halda höfði. Við byrjum á að leyfa börnunum að sitja aðeins í stutta stund í einu, oftast í  fangi okkar. Tíminn er svo lengdur eftir því sem barnið eldist, til að takmarka álagið á bakið og til að þau þreytist ekki. Ég treysti þér til að meta, hvað er hæfilegur tími.  Æskilegt er þó fyrir barnið að skipta oft um stellingu. Eftir því sem barnið eldist og styrkist í hreyfingum og verður stöðugra á þessu aldurstímabili, sem ég nefndi, getur þú prófað þig áfram með að leyfa barninu að fá tækifæri til að æfa sig í að sitja. Þegar þau sitja næstum óstudd t.d. við sex mánaða aldur, þegar þau halla sér áfram og styðja sig þannig með höndunum fram fyrir sig er óhætt að leyfa þeim að prófa að sitja í barnastól. Ef þið eruð að ferðast með barnið getur verið hentugt að hafa kerru eða annað sambærilegt farartæki undir barnið. Það þarf þó fyrst og fremst að hugsa um, að það fari vel um barnið í kerrunni, það hafi nægan stuðning við líkamann og hægt sé að skipta um stellingu eins og að leggja bakið niður. Auk þess þarf að hugsa um öryggi barnsins s.s. að beisla það niður í kerruna og að hún sé stöðug með öruggum bremsum á. Ef þið farið í sólina er æskilegt að hafa sólhlíf eða skerm á kerrunni, sem verndar barnið gegn sólarljósinu.

Góða ferð og gangi ykkur vel,

Kolbrún Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
8. ágúst 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.