Spurt og svarað

26. ágúst 2010

Hversu lengi varir gulutímabilið?

Ég átti litla stúlku í ágúst eftir 37 vikna og 4 daga meðgöngu. Ljósmóðir mín var svolítið hrædd um að hún myndi fá guluna, en svo fórum við í skoðun þegar hún var 4 daga gömul og þá var engin gula :-)

Eru þá engar líkur að hún fái guluna eða hversu lengi stendur gulutímabilið yfir?

Kveðja, Ágústmamma.


Sæl Ágústmamma!

Nýburagula kemur yfirleitt fram á fyrstu vikunni og er yfirleitt mest áberandi á 4. eða 5. degi hjá heilbrigðum fullburða nýbura þannig að það lítur út fyrir að þín hafi sloppið við gulu. Þar sem stúlkan þín fæðist eftir 37 vikna meðgöngu telst hún vera fullburða þó að þú hafir ekki gengið með hana í fullar 40 vikur. Börn sem fæðast fyrir tímann eru í meiri hættu á að fá gulu jafnvel þó þau séu fullburða, þess vegna hefur ljósmóðirin verið að velta þessu fyrir sér.

Nú veit ég ekki hvers vegna þú sendir þessa fyrirspurn - en ef þú ert að velta fyrir þér hvort stúlkan þín sé með gulu núna, þ.e. ef þér finnst húðin hennar gul - þá þarftu að láta skoða hana á heilsugæslustöðinni.

Gangi ykkur vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. ágúst 2010.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.