Spurt og svarað

03. maí 2006

Hvít, einskonar útferð hjá 3ja vikna

Góðan daginn og takk fyrir alveg frábæran vef sem hefur reyndist mér rosalega vel núna á minni fyrstu meðgöngu. 

Núna á ég hinsvegar orðið eina litla 3ja vikna prinsessu og allt gengur rosalega vel. Ég hef reyndar spurningar sem eru kannski asnalegar en það verður bara að hafa það. Betra að vera viss :-)  Þannig er mál með vexti að ljósmóðirin sem kom heim til okkar eftir fæðingu sagði mér að láta bara vera svona hvíta, einskonar útferð hjá stelpunni en ég var að spá núna er ennþá svona hvítt á milli barmanna hjá henni og á ég ennþá að láta þetta vera eða á ég að hreinsa þetta?  Það eru engin útbrot hjá henni eða neitt rautt eftir bleiuna bara þetta hvíta. Ég hef strokið létt yfir þetta með svampi en þetta virðist vera svona svolítið fast svo ég var ekkert að nudda þetta burt. 

Svo er það annað en það er með brjóstagjöfina. Hún drekkur yfirleitt rosalega vel en stundum þá tekur bara nokkra sopa og sofnar svo. Ég vek hana þá og hún virðist vera svöng og leitar að brjóstinu en tekur aftur bara nokkra sopa og sofnar svo. Svona gengur þetta kannski í nokkur skipti en svo ef ég ætla að leggja hana í rúmið sitt glaðvaknar hún og verður hundfúl. Ég hef reynt að hátta hana og hafa hana bara á bleiunni en það virðist engu skipta.  Hvað get ég gert í sambandi við þetta? 

Með fyrirfram þökk ein smá óörugg með nýjasta fjölskyldumeðliminn :-)


Sæl og til hamingju með barnið!

Þetta hvíta sem þú talar um eru sjálfsagt leifar af fósturfitu og alger óþarfi að hafa áhyggjur af því, hún fer með tímanum. 

Í sambandi við brjóstagjöfina ertu á réttri leið, ef að barnið er latt að drekka er einmitt gott að taka það úr fötunum og leggja á brjóstið það örvar oft barnið til að drekka betur.  Einnig gæti verið að barnið þurfi að vakna betur upp og tjá svengdina, áður enn þú leggur á brjóstið, ágætt ráð getur verið að skipta á því og jafnvel strjúka af því með rökum klút og sjá hvort það vakni betur upp fyrir gjöfina.
Þú talar um að yfirleitt gangi fæðugjafirnar mjög vel svo að ef að þetta gerist einstaka sinnum þá ættir þú að vera róleg, barnið drekkur þá bara meira í næstu gjöf.

Með ósk um áframhaldandi velgengni,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
3. maí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.