Spurt og svarað

21. desember 2009

Ilmkerti í umhverfi nýburans

Mér var sagt um daginn að ilmkerti væru skaðleg fyrir ungbörn og jafnvel eins slæm og reykingar. Er þetta rétt ? Ég á 5 vikna barn og var þess vegna að velta þessu fyrir mér þar sem mikið er um notkun ilmkerta um jólin.


Sæl og blessuð!

Takk fyrir fyrirspurnina. Ég verð að viðurkenna að ég hafði nú ekki velt þessu fyrir mér en það er vissulega vert að gefa þessu gaum.

Það er alveg ljóst að kerti - hvort sem það eru ilmkerti eða venjuleg kerti þá menga þau andrúmsloftið, og það er vel þekkt að fólk sem er með sjúkdóma í öndunarfærum þolir illa að hafa mikið af logandi kertum í kring um sig. Ég á nú erfitt með að trúa því að ilmkerti séu jafn slæm og reykingar en get ekki staðhæft neitt um það hér og nú. Þegar kerti brennur upp myndast sót og ýmis efni losna út í andrúmsloftið (fer eftir því úr hverju kertið er unnið) s.s. formaldehýð, asetaldehýð, acrolein og blý ef kveikiþráðurinn er gerður úr blýi (sennilega mjög sjaldgæft). Ilmur fer svo auðvitað mjög misjafnlega í okkur og sumir hreinlega þola illa ýmis konar lykt, hvort sem það eru börn eða fullorðnir.

Ég held að við verðum að nota heilbrigði skynsemi í þessum málum. T.d. þolir heilbrigður nýburi örugglega alveg að vera stutta stund þar sem kveikt er á kertum eða ilmkertum en barn sem viðkvæmt eða veikt ætti ekki að þurfa að vera í umhverfi sem hugsanlega er mengað af brennandi kertum eða ilmkertum.

Ég vona að þetta svari einhverju. Það væri svo gaman að heyra frá einhverjum sem þekkir þessi mál kannski betur. Eitt er víst að það er örugglega gott að gæta hófs í þessu sem öðru.

Jólakveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
21. desember 2009.

Heimild: http://www.pediatriccareonline.org/pco/ub/view/AAP-Textbook-of-Pediatric-Care/394093/1.11/chapter_93:_healthy_newborn_discharge:_counseling_the_family

Sjá einnig grein um kerti: http://www.natturan.is/frettir/3759/

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.