Spurt og svarað

12. desember 2007

Jólabarn og jólaboð

Sælar ljósmæður,

Ég hef orðið vör við margir foreldrar halda nýfæddum börnum sínum frá öðrum krökkum fyrstu vikurnar og jafnvel mánuðina eftir fæðingu. Sérstaklega þeim sem eru á leikskólaaldri. Ég á von á jólabarni og er að velta því fyrir mér hvort við eigum að sleppa öllum boðum þessi jólin, það er að segja ef barnið verður fætt?  Er ekki nóg að passa upp á að börnin séu ekki að kjassast í því nýfædda?

Kær kveðja og takk fyrir góða síðu, 

 


 

 Komdu sæl 

Nýfædd börn eru með mjög óþroskað ónæmiskerfi þannig að þau hafa litla sem enga vörn gegn sýkingum við fæðingu. Þau fá því auðveldlega allar pestir sem þau komast í snertingu við og eiga erfitt með að vinna sjálf á þeim.  Smám saman eykst vörnin en það er talað um að fyrstu 3 mánuðirnir séu mikilvægastir í að halda barninu úr margmenni til að forðast sýkingar.  Vissulega fær barnið mótefni úr móðurmjólkinni en það ver það samt ekki alveg. 

Á þessum tíma árs eru alls konar sýkingar að ganga og með þeim verstu er RS vírusinn sem lýsir sér í venjulegu kvefi hjá stálpuðum börnum og fullorðnum en getur reynst hættulegt svona litlum börnum.  Þau ráða illa við svona sýkingu og geta jafnvel þurft aðstoð til að anda.  Sýkingar berast ekki bara með höndum eða kossum og knúsi heldur eru líka loftbornar sem þýðir að ef einhver hóstar berast sýklar út í andrúmsloftið og geta valdið sýkingum hjá hinum sem eru í kring.  Og svo eru það leikskólabörnin sem halda ekki alltaf fyrir munninn þegar þau hósta, bora kannski í nefið og taka svo næsta dót og setja það í fangið á litla barninu til að það geti leikið sér og þá er komin enn ein smitleiðin. 

Þar sem þú ert ekki búin að eiga barnið og jólin alveg að koma finnst mér að þú ættir nú bara að njóta þess að vera heima hjá nýfæddu barni og fá fólk frekar til þín í stuttar heimsóknir.  Þú þarft að hugsa um að koma brjóstagjöfinni vel af stað og það getur tekið 2 vikur.  Brjóstagjöfin tekur mikinn tíma og orku svona fyrstu vikurnar og þú þarft að muna að hvíla þig vel.  Þú þarft líka að jafna þig eftir fæðinguna og það getur líka tekið tíma.

En auðvitað ræður þú og pabbinn og verðið að velja hvað hentar ykkur og ykkar barni.

Jólakveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
12. desember 2007.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.