Spurt og svarað

18. ágúst 2007

K-vítamín

Ég hef átt tvö börn erlendis og þar var þeim gefið K-vítamín dropa en ekki sprautu. Nú er ég ólétt og hef ekki hugsað mér að láta sprauta barnið vegna tengsla sprautunnar við ýmis þroskafrávik. Við viljum því gefa okkar barni dropa. Hvernig er best að snúa sér í þessu?

 


 

Sæl og blessuð! Takk fyrir að senda okkur fyrirspurn.

K-vítamín er okkur lífsnauðsynlegt og skortur á K-vítamíni veldur því að það tekur lengri tíma fyrir blóðið að storkna og það getur orsakað innri blæðingar. K-vítamínið er framleitt af gerlum sem finnast í þörmunum en þeir gerlar sem framleiða vítamínið eru ekki til staðar í nýfæddum börnum. Skortur á K-vítamíni hjá nýfæddum börnum getur valdið blæðingum í þörmum og höfði. Slíkar blæðingar geta verið lífshættulegar fyrir nýburann og því er nýfæddum börnum oft gefin sprauta með K-vítamíni strax eftir fæðingu. Mér vitanlega hefur K-vítamín sprautan ekki verið tengd við þroskafrávik en hins vegar kom fram rannsókn fyrir all mörgum árum sem tengdi sprautuna við hvítblæði hjá börnum en síðan hafa verið gerðar margar rannsóknir sem ekki hafa staðfest þessi tengsl þannig að það er ekki talið K-vítamín sprautan geti aukið líkur á hvítblæði. Hér á landi tíðkast að gefa eina sprautu fljótlega eftir fæðingu en sums staðar eins og t.d. í Danmörku tíðkast að gefa K-vítamínið í fljótandi formi. Rannsóknir benda til þess að það sé árángursríkara að gefa sprautuna en að gefa lyfið í fljótandi formi um munn, þ.e. færri tilfelli blæðinga hafa komið upp hjá þeim hópum sem fengu lyfið í sprautuformi en í fljótandi formi, um munn. Það sem getur reyndar haft áhrif á þær niðurstöður er sú staðreynd að með sprautunni er allur skammturinn gefinn í eitt skipti en droparnir eru gefnir í nokkrum skömmtum og því er ákveðinn hætta á því að það gleymist að gefa einhvern skammt af lyfinu.

Ég held að það væri best fyrir ykkur að ræða þetta mál við barnalækni og fá dropunum ávísað fyrir fæðingu og hafa það svo meðferðis á fæðingardeildina því þetta lyf er eingöngu til í sprautuformi á flestum fæðingardeildum hér á landi.

Vona að þetta svari spurningunni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
18. ágúst 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.