Kippir hjá rúmlega viku gömlu barni

26.10.2008

Sælar!

Sonur minn er rúmlega viku gamall og hefur verið að fá kippi í líkamann. Þá helst þegar hann liggur á maganum og kúrir hjá okkur. Auðvitað veldur þetta okkur smá áhyggjum þótt að þetta hafi aðeins gerst tvisvar. Við höfum heyrt að þetta sé eðlilegt en vildum vera viss.

Með bestu kveðju, Órólegir foreldrar.


Sæl!

Þú lýsir ekki kippunum nákvæmlega en öll ungabörn hafa svokölluð viðbrögð (reflexa) sem eru algengir í upphafi lífs þar er best þekkt Moro viðbragð (reflex) sem lýsir sér þannig að liggi barnið á sléttum fleti þá baðar það stundum út öllum öngum eins og því bregði. Þetta er eðlilegt ástand. Hins vegar gætu kippir sem eru taktfastir og koma með reglulegu millibili hvort sem er í öllum líkamanum í senn eða bara öðru megin, verið ábending um að eitthvað sé athugavert. Ef svo er er ráðlagt að leita læknis til að skoða barnið frekar.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. október 2008.