Koddar fyrir ungbörn

25.11.2005

Góðan daginn!

Vitið þið hvenær er réttur tími fyrir ungbörn að byrja að nota kodda? Það fylgdi koddi með sænginni sem ég keypti og ég var að velta því fyrir mér hvort maður ætti að miða við einhvern sérstakan aldur?

Takk fyrir frábæran vef.

Kveðja, Guðrún.

...........................................................................


Komdu sæl, Guðrún og takk fyrir að leita til okkar!

Það er ekki mælt með að ungbörn noti kodda vegna hættu á köfnun, þegar höfuð þeirra sekkur í koddann og þau eru of ung til að geta snúið sér sjálf eða reist sig upp. Koddinn getur að hluta til farið yfir andlitið á þeim eða andlit þeirra farið ofan í koddann og getur leitt til þess, að þau fá ekki nægjanlegt súrefni við öndun. Það ætti alltaf að leika frítt loft um andlit ungbarna, þegar þau sofa. Það þarf líka að passa upp á að sængin fari ekki upp fyrir höfuðið á þeim og hefti öndun.

Börn geta farið að nota kodda, þegar þau geta reist sig upp sjálf, sest upp og snúið sér, sem væri á aldursbilinu 8-12 mánaða. Það ætti að vera öruggt að miða við eins árs aldurinn.

Bestu kveðjur og gangi ykkur vel,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
25. nóvember 2005.