Spurt og svarað

27. júní 2004

Lífslíkur fyrirbura

Góðan dag og takk fyrir fræðilega og mjög góða síðu.

Ég var svona að velta því fyrir mér á hvaða viku barn hafi meiri lífslíkur en minni ef það fæðist mikið fyrir tímann, er komin 22 vikur.

Með þökk.


Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Gaman að heyra að þér líst vel á síðuna okkar. Varðandi spurninguna þína þá er fyrirburi barn sem fætt er fyrir fulla 37 vikna meðgöngu. Fyrirburafæðing er þegar barn fæðist fyrir þann tíma og hefur ekki náð fullum þroska. Eftir 28.-32.vikna meðgöngu hefur barnið yfirleitt góða möguleika á að lifa.  Ein helsta breytingin hjá barninu við fæðinguna er að það byrjar sjálft að anda. Til þess þurfa lungun að hafa náð nægum þroska, þar sem lungun þroskast á síðasta þriðjungi meðgöngunnar þá eru öndunarerfiðleikar oft mikið vandamál hjá börnum fæddum fyrir tímann. Þess vegna reyna læknar og heilbrigðisstarfsfólk að koma í veg fyrir og stoppa fyrirburafæðingu, þannig að barnið nái meiri þroska í sínu rétta umhverfi. Margir fyrirburar spjara sig mjög vel en því meiri fyrirburi sem barnið er því meiri líkur eru á öndunarerfiðleikum og þau þurfi öndunarvél og auka súrefni. Þau eiga erfiðara með að halda á sér hita, eru líklegri til að gulna og eiga oft erfiðara með að nærast. En lífslíkur lítilla fyrirbura sem eru við fæðingu léttari en 1000 grömm hafa aukist verulega á síðari árum. Í grein úr  Læknablaðinu frá árinu 2003 kemur fram að lifun lítilla fyrirbura á Íslandi á árunum 1982-90 var 22% en 52% á tímabilinu 1991-95. Meðgöngulengd hjá mæðrum þessara fyrirbura var að meðaltali 27 vikur en dreifingin var á bilinu 24-32 vikur. Fæðingaþyngd fyrirburanna sem fæddust á árunum 1982-90 var frá 608-990 grömm en hinna sem fæddust 1991-95 á bilinu 590-990grömm.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Halla Huld Harðardóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
27. júní 2004.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.