Magakveisa nýbura

04.03.2015

Góðan dag. Sonur minn er 7 vikna og er með ungbarnakveisu. Ég er búin að fara með hann til barnalæknis til þess að útiloka að það sé eitthvað annað sem hrjáir hann. Mér finnst alveg ömurlegt að horfa upp á barnið mitt þegar hann grætur sárt og greinilega sárkvalin, kaldsvitnar og verður rauður í framan þegar hann fær magaverk. Ég var að leita á netinu að ráði við svona kveisu og þá fann ég gamalt húsráð að gefa barni púðursykursvatn? Haldið þið að það sé í lagi að prófa það? Öll ráð eru vel þegin frá ykkur en ég er búin að prófa minifoam og það virðist ekki hafa neitt að segja. Hann gleypir mikið loft þegar hann er að sýgur. Og læt ég hann alltaf ropa eftir gjöf, yfirleitt tekst það en stundum ekki. Ég nudda hann 1x á dag. Ætti ég að fara með hann aftur til barnalæknis ef hann verður ekkert skárri?


 Heil og sæl og þú átt alla mína samúð. Það er erfitt að vera með kveisubarn en sorglega lítið hægt að gera. Ég mundi ráða þér frá því að gefa púðursykurvatn, það er löngu búið að sýna fram á að gerir ekkert gagn. Oftast nær er kveisan gengin yfir um 12 vikna og oft fyrr. Þú verður því að horfa fram á veginn og vera þolinmóð. Oft hættir þetta eins skyndilega og það byrjaði. Mér sýnist þú gera allt það helsta sem mælt er með. Hvað varðar að fara með hann til barnalæknis held ég að það þýði ekki þar sem þú ert nú þegar búin að fara með hann. Það er lítið hægt að gera nema eins og þú gerðir að útiloka að það sé nokkuð annað sem hrjáir hann.
Gangi þér vel og ekki missa móðinn – þetta mun lagast!!!
 
Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
4. mars 2015