Spurt og svarað

16. október 2005

Magakveisa og mjólkuróþol

Sælar verið þið og takk fyrir góðan vef.

Mig langar að forvitnast um börnin í Kína. Nú hef ég heyrt að Kínverjar neyta eða neyttu engrar mjólkurafurða og þar sem að mjólkin fer illa í sum börn langar mig að vita hvort að kínversk börn fái enga magakveisu? Minn fimm vikna strákur hefur verið með magakveisu en eftir að ég hætti að neyta mjólkurafurða hefur það hætt sem er mjög gott nema að því leytinu að mér finnst mjólk og mjólkurafurðir svo góðar. Hvenær get ég farið að drekka aftur mjólk og það fer ekki illa í strákinn?

Með kveðju, Kálfurinn.

...........................................................................

Sæl og blessuð !

Já það er rétt hjá þér að Kínverjar neyta mjög lítilla eða nánast engra mjólkurafurða. Þeirra kynflokkur hefur einhverra hluta vegna óþol fyrir mjólkurvörum og mataræði þeirra hefur því þróast þannig í gegnum tíðina að það inniheldur svo til engar mjólkurvörur. Magakveisa fyrirfinnst nú samt í kínverskum börnum eins og börnum frá öðrum löndum, en hvort hún er eitthvað sjaldgæfari hjá þeim skal ég ekki segja. Mjólkuróþol er ekki eina ástæða magakveisu í ungbörnum, börn geta sem sagt verið með magakveisu án þess að vera með óþol fyrir mjólk.
Varðandi drenginn þinn þá er frábært að þú ert búin að finna út hvað það er sem veldur magakveisunni hans. Þú skalt halda þínu striki og sleppa mjólkurvörunum í einhvern tíma í viðbót en svo getur þú smám saman farið að prófa þig áfram með því að borða pínulítið í einu af mjólkurvörum. Mjólkuróþol getur vaxið af börnum og vonandi gerir það það í ykkar tilfelli.

Bestu kveðjur og gangi ykkur vel,

Halla Björg Lárusdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
16. október 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.