Magn þurrmjólkur

13.08.2006
Kæru ljósmæður takk fyrir góðan vef
Ég eignaðist stelpu í júni 7 vikum fyrir tímann og allt hefur gengið mjög vel með hana hingað til. Hún þurfti að vera stutt á vökudeild af því að hún þyngdist svo vel.  En núna undanfarnar 2 vikur hefur henni ekki liðið alltof vel. Hún er erfið á kvöldin og farin að sofa lítið á daginn. Hún er eigilega bara alltaf óánægð þegar hún er vakandi. Af óviðráðanlegum orsökum er hún ekki á brjósti og ég gef henni það magn af þurrmjólk sem gefið er upp á umbúðunum sem er um 100ml fyrir hennar þyngd. Ég var að hugsa hvort hún geti verið svöng hjá mér, hún virðist geta tekið endalaust við og er mjög leitandi. Hún er orðin um 4 kíló, getur verið að hún þurfi meira er þetta ekki heilagt sem stendur á þessum umbúðum og á ég að gefa henni bara þangað til hún vil ekki meira? Spurningin er eiginlega er hægt að  gefa of mikið?  Einhver sagði mér að ef þau eru með í maganum þá taka þau endalaust við af því þeim líður vel á meðan þau sjúga pelann er
eitthvað til í því?
Með von um skjót svör


Komdu sæl.

 
Magn þurrmjólkur sem gefið er upp samkvæmt þyngd er bara til viðmiðunar.  Sum börn þurfa minna og önnur meira.  Besti mælikvarðinn á það hvort börnin fái nóg er hvort þau þyngjast vel og dafna.  Ef þú ert viss um að ekkert læknisfræðilegt ami að dóttur þinni þá er sjálfsagt fyrir þig að reyna að gefa henni eins og hún vill og sjá hvort hún verður rólegri.  Annars hefur þú alltaf aðgang að ungbarnaeftirlitinu og ættir að leita þangað ef þetta lagast ekki.
 
Bestu kveðjur
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
13.08.2006.