Mega ungbörn vera í miðjusæti aftur í bíl?

10.08.2007

Langar til að bera upp spurningu um öryggi ungbarna í bíl. Alls staðar þar sem ég skoða greinar eða myndir er jú talað um að ungbörn eigi að vera í þar til gerðum stólum, vísa í akstursstefnu og ekki vera þar sem er loftpúði og helst í aftursæti bifreiðar og alltaf eru þau staðsett vinstra eða hægra megin. En hvað með miðjusætið aftur í? Mega þau ekki vera þar eða hvað er málið?


Sæl og blessuð!

Það er alveg öruggt að setja ungbarn í bílstól í miðjusæti aftur í ef þar er þriggja punkta belti og stóllinn situr vel í sætinu. Sum sæti eru svolítið kúft í miðjunni og þá getur verið að stóllinn sitji ekki vel þar, þ.e. sé valtur. Tveggja punkta belti halda yfirleitt ekki stólunum eins vel og marga stóla er eingöngu hægt að festa með þriggja punkta belti  E.t.v. er ástæðan fyrir því að oftast er talað um hægri og vinstri sæti er að í gömlum bílum er oft ekki þriggja punkta belti í miðjunni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
10. ágúst 2007.