Meltingatruflanir?

12.04.2005

Sæl og takk fyrir frábæran vef.

Ég er með inn lítill prins sem er 10 daga gamall, hann er svakalega duglegur að taka brjóstið og drekkur mikið, er duglegur að sofa hann og er afar vær og góður. Eina sem að ég var að spá er að hann grettir sig mikið undanfarið í svefni svona eins og hann sér að berjast við eitthvað, er það alveg eðlilegt? Hann er duglegur að kúka og pissa, gætu þetta verið meltingatruflanir eða vaxtarkippir?

.......................................................................

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Til hamingju með litla drenginn þinn. Erfitt er að segja til um hvað veldur grettunum sem þú talar um en flest börn taka vaxtarspretti með nokkurra vikna millibili. Algengast er að þetta gerist um 2 vikna, 6 vikna og 3 mánaða aldur. Sum börn eru þá frekar óvær í nokkra daga og vilja drekka oft og lengi. Ef barnið fær að ráða ferðinni og taka brjóstið að vild, fær það nóg auk þess sem mjólkurmyndunin eykst við þessa miklu örvun. Einhverjar smávægilegar meltingatruflanir geta komið hjá ungbörnum stundum eiga þau í svolitlum erfiðleikum með að ropa eða losa sig við loft, þá getur verið ágætt að prufa að gefa barninu miniform dropa. Þeir geta hjálpað barninu að losa sig við loft. Gott er að nota dropana í þrjá daga og ef engin breyting verður á líðan barnsins þá er ekki ástæða til að halda notkun þeirra áfram. Segja má að fyrsta mánuðinn eftir fæðingu barnsins séu foreldrarnir að kynnast nýja barninu sínu og venjast nýju hlutverki og það tekur allt sinn tíma og gott er að gefa sér góðan tíma.

Kveðja,

Halla Huld Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. apríl 2005.