Mengun

26.02.2009

Sælar kæru ljósmæður.

Mér liggur eftirfarandi á hjarta. Undanfarið hafa verið tíðar fréttir af mengun í borginni m.a. vegna svifryks og stillu. Börnum í einhverjum leikskólum í vesturhluta borgarinnar var meinað að
leika sér úti um tíma vegna þessa. Vitið þið til þess að rannsóknir hafi verið gerðar á mengun utandyra í öllum hlutum borgarinnar? Ég velti fyrir mér hvort óhætt og æskilegt sé að börn sofi úti í vögnum ef mengun af þessu tagi er mikil? Gæti það kannski ógnað lífi þeirra og heilsu að anda að sér svifryki í 2-3ja tíma legu í vagninum sínum? Ég held að þetta sé mikið alvörumál sem þarf að kanna vel og uppfræða foreldra um. Getið þið skoðað þetta, eða bent á réttu aðilana til þess.

Kveðja og þakkir, móðir og amma í Reykjavík.

 


Sæl og þakka þér fyrir fróðlegt erindi!

Mikið hefur verið skrifað um svifryksmengun á síðustu misserum. Eftir því sem ég kemst næst hefur þó ekki verið gerð rannsókn á öllum hlutum borgarinnar en þó einhverjum. Þegar mengunin er mest fer svifryk langt yfir þau mörk að teljast vera óskaðleg og eins og þú bendir á er þetta mikið alvörumál varðandi heilsufar ungra barna.

Ég bendi þér á að leita til Umhverfisráðuneytisins eða Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar varðandi fyrirspurn þína um tíðni mengunar.

Með kveðju,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. febrúar 2009.