Miniform dropar

24.08.2005

Sælar og takk fyrir góðan vef.  Ég er bara að velta því fyrir mér hvort að ungabörn geti haft óþol af Miniform dropum.  Ég byrjaði að gefa dóttur minni svona dropa þegar hún var 4ja vikna vegna þess að hún á oft svo erfitt með að ropa eftir gjafir (en hún er bara á brjósti) og verður þá svolítið óvær og er mikið að rembast og engjast um í svolítinn tíma á eftir. Annars er hún mjög vær og góð og er ekki mikið að gráta á daginn og hún sefur mjög vel á næturnar.  Eftir að ég byrjaði að  gefa henni þessa dropa komu alltaf alveg ælu gusurnar úr henni, bæði strax eftir gjöf og líka löngu seinna.  Ég prufaði svo að sleppa alveg að gefa henni dropana í dag og hún hefur nær ekkert ælt, en í staðin á hún svolítið erfitt með að ropa og þá aðeins að rembast í staðin.  Mín spurning er því sú, er ekki bara betra fyrir mig og hana að sleppa alveg þessum dropum til að hún haldi nú niðri mjólkinni og gefi henni í staðin góðan tíma til að ropa og vera bara þolinmóð í þessum rembingi.
 

Kveðja 2ja barna móðir!

.............................................

Komdu sæl 2ja barna móðir.

Miniform dropar eru oft gefnir ungbörnum, sem eiga í erfiðleikum við að losa sig við loft í sambandi við gjafir. Þeir eru gefnir fyrir hverja gjöf og tekur tvo til þrjá daga að ná verkun. Þeir virka einhvern veginn þannig, að þeir leysa upp loftbólur í meltingarveginum, þannig að barnið á auðveldara með að losa sig við loftið.  Ef dóttir þín er ekki illa haldin af uppþembu eða lofti, þannig að hún er mjög óvær eða grætur mikið vegna þess er ekki víst, að hún þurfi á dropunum að halda. Ég myndi tengja þessar ælugusur hennar dropunum og það er alveg öruggt, að móðurmjólkin er nauðsynlegri en þeir. Móðurmjólkin er það besta, sem þú getur gefið barninu þínu. Það er líka mikilvægt, að barnið tæmi nokkurn veginn brjóstið og fái síðustu mjólkina úr brjóstinu líka, s.s. þá fituríkari en formjólkina (þá, sem kemur fyrst úr brjóstinu við hverja gjöf). Það getur valdið meiri loftmyndun í görninni ef börn fá aðallega formjólkina. Rembingur hjá barninu getur einnig verið merki um loft í görninni, sem gengur oftast yfir með tímanum. Svo kemur þetta yfirleitt með ropann líka, en það getur verið gagnlegt að prófa mismunandi aðferðir við að láta barnið ropa. Sitjandi staðan, þar sem barnið er látið sitja um leið og haldið er undir hökuna á því með annarri hendi og strokið mjúklega en þétt upp bakið með hinni hendinni, hefur reynst gagnleg í þeim tilgangi. Held þér sé alveg óhætt að sleppa dropunum og svo er fylgst með þyngdaraukningunni í ungbarnaverndinni. Ef barnið heldur áfram að vera óvært ættirðu að leita til hjúkrunarfræðingsins þíns í ungbarnaverndinni.

Gangi ykkur vel,
kveðja

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24.08.2005.