Spurt og svarað

19. október 2011

Miniform dropar

Hæ hæ.

Sonur minn sem er að verða 3 vikna er komin með "kveisu" sefur lítið í einu og vill vera stanslaust á brjósti og þess á milli
engist hann um og prumpar og grætur sárum gráti. Næturnar fara í það hjá mér að vera með hann á brjóstinu svo hann nái að "sofa " eitthvað. Ég er að pæla að byrja með hann á miniform dropunum en rakst á grein síðan
2007 sem vara við notkun dropana. Hvað segir þú með þetta?

Sælar elsku ljósmæður.

Ég er með einn 4 vikna sem rembist alla nóttina, sennilega af vindverkjum. Hann er lengi að drekka og ropar mikið eftir
hverja gjöf, en greinilega ekki nóg. Við gerum ungbarnanudd til að örva meltinguna yfir daginn en ekkert virðist hjálpa greyinu. Hann rembist og rembist alla nóttina en sefur sæmilega yfir hádaginn, einmitt þegar mér kemur ekki dúr á auga. Ég ætla að reyna að gera rophlé á næstu gjöfum en virki það ekki, ætlaði ég að grípa til minifom dropa. En svo rakst ég á
þessa grein
http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1141721og nú líst mér ekki á blikuna með að gefa barninu dropana og ég er bæði svefnlaus og ráðþrota gagnvart þessum meltingartruflunum. Til að bæta gráu ofan á svart hefur drengurinn verið kvefaður frá fyrstu viku þannig að taugar okkar, foreldranna eru ansi strekktar, enda mikið í húfi að koma
barninu strax undir læknishendur þegar eitthvað er raunverulega að. Svefninn hefur því verið með minnsta móti og ég stend mig að því að spyrja mig hvort þetta bréf sé merki um dómgreindarleysi orsakað af of mörgum andvökunætum. Er séns að hann gleypi minna loft ef ég mjólka mig og pabbinn gæti þá mögulega gefið honum úr pela í stað einnar næturgjafar,
eða gerir pelinn bara illt verra hjá kveisubörnum? Dettur ykkur eitthvað fleira í hug sem gæti hjálpað litla kveisuboltanum mínum?

Kær kveðja,Baugalína


Komiði sælar.

Eftir umræðuna 2007 var uppskriftinni að Miniform dropunum breytt eitthvað svo þeir þykja hættulausir í dag og er verið að ráðleggja þá í ungbarnaverndinni á heilsugæslustöðvum. 

Það eru líka til náttúrulegir dropar sem heita Skírnir dropar og fást í apótekinu hennar Kolbrúnar grasalæknis á Laugaveginum en þeir eiga að virka svipað og Miniform

Börn gleypa venjulega meira loft þegar þau drekka úr pela en af brjósti en pelagjöf getur þó verið ágæt til að mamma geti fengið smá hvíld.  Gott er að muna að þetta gengur yfir og nauðsynlegt að skiptast á svo mamma nái aðeins að hvílast. 

Gangi ykkur vel.

 Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
19.október 2011.


 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.