Spurt og svarað

16. ágúst 2004

Mjólkuróþol?

Dóttir mín er 10 daga gömul og í fyrradag byrjaði hún allt í einu að verða óróleg í hvert skipti sem hún var búin að drekka. Síðan hefur þetta farið stigi vaxandi og greyið veinar af sársauka stuttu eftir hverja brjóstagjöf en er skárri þegar hún fær að liggja á maganum. Gráturinn er öðruvísi heldur en þegar hún vill fá að drekka og það er greinilegt að henni líður illa. Mér datt helst í hug að þetta gæti verið mjólkuróþol eða eitthvað þannig. Ég vona að þú getir hjálpað mér því ég fæ sting í hjartað í hvert skipti og ég heyri dóttir mína veina af sársauka :o(

Með fyrirfram þökk,
áhyggjufull móðir.

............................................................

Sæl og blessuð.

Já 10 daga aldurinn er stundum erfiður og þá fer gjafamynstrið að segja til sín. Ég myndi ráðleggja þér að fara vel yfir gjafamynstrið. Er dóttir þín að fá nógu margar gjafir? (8-12 á sólarhring). Eru þær nógu langar? Drekkur hún þar til hún sleppir vörtunni sjálf. Fær hún annað eða bæði brjóst í gjöf. Ef gjafir eru í styttri kantinum er betra að hún fái bara eitt brjóst í gjöf. Ef hún fær bæði brjóst í gjöf þarf fyrra brjóstið að vera mun betur sogið þannig að tryggt sé að hún fái vel af eftirmjólk.

Þú skalt líka líta eftir ropþörf barnsins. Sum börn þurfa að ropa og einstaka ropa mikið og þau virðast hafa mjög sáran grátur ef þau geta ekki ropað. Taktu barnið af brjósti eftir 1 mínútu sog og láttu það ropa. Þegar barnið hefur síðan lokið sér af skaltu bjóða því aftur að ropa.

Mjólkuróþol er frekar ólíklegur möguleiki. Til þess þarf barnið að hafa fengið þurrmjólk eða eitthvert annað form af kúamjólk í þó nokkru magni. Það er jú hugsanlegur möguleiki ef þú ert mikið fyrir mjólkurvörur að kúamjólkurprótein sem þú innbyrðir komist yfir í þína mjólk og valdi óþoli hjá barninu. Barnið er þá líka væntanlega mjög næmt. Það skaðar þig ekkert að taka út allar mjólkurvörur og sjá hvort það breyti einhverju en þú athugar að það þarf að líða a.m.k. vika þar til breyting sést.

Til að forðast misskilning vil ég taka fram að að sjálfsögðu getur þitt barn ekki haft óþol fyrir þinni mjólk. Hún er jú byggð upp af frumum sem eru eins upp byggðar og helmingur fruma barnsins.

Vonandi fer ástandið skánandi.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. ágúst 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.