Myglusveppur, bólur. óværð

04.03.2015

Sæl og takk fyrir fràbæran vef. Ég er aðeins að velta fyrir mér, ég er með einn sem er að verða mànaðar gamall. Hann er svo rosalega óvær og er að spretta rosalega mikið í bólum og sefur ekki mikið. Sem ég taldi fyrst bara vera hormónabólur. En svo fór ég að velta fyrir mér hvort það gæti verið eitthvað à heimilinu hjà mér. Getur þetta komið hjà svona ungum börnum ef það er eitthver myglusveppur í íbúðinni? Af því um leið og við förum t.d. til ömmu hans og erum þar í einhvern tíma þà virðist hann lagast af bólum og er ekki svona óvær.

 

Sæl og blessuð og til hamingju með soninn. Varðandi bólurnar þá finnst mér lang líklegast að þetta séu hormónabólur eins og þér datt sjálfri í hug. Aldurinn passar alveg við það og svo er líka algengt að þær séu ekki alltaf eins og svolítið misslæmar. Þú segir að hann sé værari þegar þið farið í heimsókn til ömmu og það getur líka skýrt það að bólurnar eru minna áberandi ef hann grenjar minna. Hugsanlega ert þú sjálf kannski rólegri í heimsókninni því að þar færðu ef til vill meiri stuðning og hjálp heldur en þegar þú ert ein með hann heima. Ef þú ert rólegri er barnið líka værara. Þetta eru auðvitað bara getgátur hjá mér en mér finnst þetta miklu líklegri skýring heldur en myglusveppur. Ef þið eruð með myglusvepp í íbúðinni getur þó vel verið að það hafi einhver áhrif á hann. Ég ráðlegg þér að ræða þetta við annaðhvort ljósmóður eða hjúkrunarfræðing sem kemur til þín í ungbarnavernd. Gangi þér vel.  

 
Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
4. mars 2015