Ein hrædd - meðgöngulengd

10.12.2008

Ég vill byrja á að þakka fyrir mjög góðan og hjálpsamlegan vef hjá ykkur!

Ég er svolítið óörugg með hvað ég er komin langt en samkvæmt snemmsónar, hnakkaþykktarmælingu og aukasónar er ég komin nákvæmlega 19 vikur og allir sammála með það. Þegar legbotninn var mældur hjá mér á 16 viku í mæðraskoðun var hann um 18 cm og nákvæmlega tveim vikum seinna 24 cm. sem sagt komin 18 vikur. Getur þetta staðist? Ég veit ekki hvað ég á að halda en getur hugsanlega verið að ég sé komin lengra? Þetta er alveg að fara með mig því ef ég væri komin 2 vikum lengra þá væri hugsanlega annar barnsfaðir sem kæmi mér í rosalega slæma stöðu! Ég væri mjög þakklát fyrir einhvað svar þar sem ég hugsa varla um annað og þetta er alveg að fara með mig ég græt bara og græt og veit ekkert hvað ég á að gera eða hvert ég get snúið mér í þessu máli.

p.s. þegar þær athuguðu hvað ég var komin langt þá mældu þau frá stærð fóstursins en ekki samkvæmt blæðingum því það hefði ekki staðist.


Sæl!

Mér heyrist þú vera með meðgöngulengdina eins vel staðfesta og unnt er að gera í dag því snemmsónar og hnakkaþykktarsónarinn er það besta sem við höfum í dag til að reikna út meðgöngulengd, en það eru alltaf skekkjumörk upp á 5 daga til eða frá. Mæling á hæð legbotns er ekki mjög nákvæm til að reikna út meðgöngulengd og er ekki notuð til þess, heldur til að fylgjast með vexti og þá er þumalputtaregla að hæð legbotns er sú sama og meðgönguvikurnar. Það er margt sem getur haft áhrif á hæð legbotns , eins og t.d. full þvagblaðra og leg hjá sumum konum liggur líffræðilega mjög hátt. Hafðu ekki áhyggjur þú ert með meðgöngulengdina vel staðfesta og notaðu þá meðgöngulengd sem var reiknuð í hnakkaþykktarsónarnum.

Kveðja og gangi þér vel,

María Jóna Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri fósturgreinardeildar LSH,
10. desember 2008.