Spurt og svarað

28. apríl 2004

Nýburagula

Sæl
Nú fer að styttast í fæðingu hjá mér á öðru barni mínu. Stelpan sem ég eignaðist síðast fékk gulu og fór í ljós. Læknarinr sögðu við okkur foreldrana að við mættum búast við því að öll okkar börn myndu fá gulu. Tengdu það einhverju misræmi við blóðflokka okkar.  Okkur langar svo að vita meira um guluna. Hvað er þetta nákvæmlega? Þ.e. hvað er að gerast í líkamanum hjá þessum börnum sem fá gulu? Ég hef verið að leita á netinu en ekki fundið grein sem talar um þetta. Það væri frábært ef þú gætir bent mér á hvar ég gæti fundið upplýsingar um þetta.

Með fyrirfram þökk.

Sæl!

Hér á síðunni í dálknum Sængurlegan er smá pistill um nýburagulu en hér kemur aðeins meiri fróðleikur.

Nýburagula kemur fram þegar magn gallrauða (e. bilirubin) í blóðinu verður of hátt.  Flestir nýburar eru með hækkað gildi gallrauða í sermi en aðeins um helmingur þeirra er með einkenni nýburagulu. Einkenni gulu eru fyrstu og fremst gulur húðlitur og gul hvíta í augunum því gallrauðinn er galllitarefni sem litar húðina og önnur líffæri gul. Hjá fyrirburum er nýburagula mjög algeng og fá flestir þeirra gulu aðallega vegna þess að lifur fyrirbura starfar ekki eins vel og lifur fullburða barna.  
 
Við fæðingu er eðlilegt að magn rauðra blóðkorna og þar með blóðrauða sé hærra en í eldri börnum og fullorðnum. Ástæða þess er m.a. sú að súrefnismettun í fósturlífi er lægri en eftir fæðingu og því verður barnið að hafa meira af rauðum blóðkornum og þar með blóðrauða til að mæta súrefnisþörf auk þess sem það þarf að vera viðbúið súrefnisskorti.  Um leið og nýburinn fer að anda sjálfur þá  hækkar súrefnismettun og því er ekki lengur þörf fyrir öll þessi rauðu blóðkorn. Niðurbrot rauðra blóðkorna hefst því strax eftir fæðingu auk þess er líftími rauðra blóðkorna mun styttri hjá nýburum (70-90 dagar) en hjá eldri börnum og fullorðnum (120 dagar). Við niðurbrot á blóðrauða verður til hem og glóbín.  Glóbínið nýtist aftur en fyrir tilstilli „heme-oxygenasa“ verður hem að gallgrænu sem síðan verður að gallrauða. Gallrauði er fituleysanlegt efni og þarf að komast til lifrarinnar til að geta útskilist. Gallrauði er ótengdur í blóði en í lifrinni tengist hann við glúkúroníð transferasa og kemst þaðan til þarmanna þar sem hann á möguleika á að skiljast út með hægðum. Gallrauðinn þarf að bindast albúmíni í blóði til að eiga greiða leið til lifrarinnar þannig að skortur á albúmíni getur valdið uppsöfnun á gallrauða. Það er þekkt að nýburar hafa minna af albúmíni í blóði en eldri börn og það skýrir að hluta til orsakir nýburagulu. 

Þegar gallrauðinn er kominn til lifrarinnar losar hann sig við albúmínið og tengist glúkúroníð transferasa og kemst þannig til þarmanna. Framleiðsla glúkúroníð transferasa er hins vegar ekki komin í gang fyrr en 3-5 dögum eftir fæðingu og það skýrir einnig orsakir nýburagulu. Gallrauðinn sem nær að tengjast í lifrinni flyst eftir gallgöngum til meltingarvegar þar sem hluti er gerður að úróbílínógen og skilst þannig út með hægðum. Vegna þess hve þarmaflóra nýbura er fábreytt og hrein er útskilnaður sem úróbílínógen tiltölulega lítill. Ensímið β-glúkúroníðasi sem er í þörmum nýbura hefur þann eiginleika að geta breytt samtengdum gallrauða í ótengdan gallrauða sem er svo endurupptekinn í smáþörmum og fluttur aftur til blóðsins. Þessi eiginleiki sem er mikilvægur í fósturlífi til að minnka magn hægða í þörmum er ein af aðalorsökum nýburagulu. Það er því eðlilegt að myndun gallrauða aukist á fyrstu dögunum eftir fæðingu.

Nýburi sem hins vegar sýnir einkenni gulu innan við sólarhring frá fæðingu er líklegri til að vera með gulu af völdum sjúkdóma eða áverka. Fæðingargallar á gallvegum eða meltingarfærum geta orðið til þess að líkaminn á erfitt með að losa sig við gallrauða, sýking getur verið ástæða nýburagulu og er mjög mikilvægt að greina hana og meðhöndla, börn sem verða fyrir áverkum í fæðingu og fá mikla marbletti eru í meiri áhættu á að fá gulu. Áður fyrr var nokkuð algeng og alvarleg ástæða nýburagulu misræmi milli blóðflokka móður og barns (Rhesus og ABO) en vegna fyrirbyggjandi aðgerða hefur þessum tilfellum fækkað mikið.  Vanstarfsemi skjaldkirtils, galaktósadreyri hjá nýburanum og sykursýki móður eru einnig áhættuþættir. Í sjaldgæfum tilfellum virðist sem brjóstamjólk sé orsök nýburagulu.

Anna Sigríður Vernharðsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
Yfirfarið í apríl 2020

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.