Ofholdgun í naflanum

07.08.2005

Sæl!

Ég eignaðist stúlku í júní síðastliðnum og hefur gengið mjög vel.  Það er eitt sem hefur samt verið að angra mig meira en barnið.  Það er að stúlkan fékk sýkingu í naflann og hefur hann ekki enn gróið hjá henni og er hún orðin 6 vikna gömul.  Það er búið að brenna 2 sinnum fyrir hann og sé ég fyrir mér að það þurfi að brenna hann alla vega einu sinni enn ef ekki oftar.  Ljósmóðirin talar um ofholdgun.   Það sem ég er að velta fyrir mér er hvað er yfirleitt gert í svona málum, er bara brennt fyrir þangað til hann er orðin í lagi eða er eitthvað annað hægt að gera.  Hún er enn með sýkingu í naflanum og hefur hún verið sýkladrepandi krem frá því að hún var 4 vikna.

Fyrirfram þökk.

.............................................................................

Komdu sæl, og takk fyrir að leita til okkar!

Það er leiðinlegt að heyra um sýkingu í naflanum á dóttur þinni. Læknirinn þinn í ungbarnaverndinni þinni metur naflann, nú í sex vikna læknisskoðuninni hennar, ef hann er ekki þegar búinn að því. Það þarf stundum að brenna fyrir eins og þú skýrir frá, oftar en einu sinni. Ef þú ert að bera sýkladrepandi krem á húðsvæðið þarf einnig að fylgjast með, hvort það gagnast eða ekki. Ef það gagnast ekki er eðlilegt að taka sýni frá svæðinu og senda í ræktun. Berðu þetta undir fagfólkið í ungbarnaverndinni.

Með von um úrbætur.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
7. ágúst 2005.