Ein slagæð í naflastreng

08.05.2008

Góðan daginn.

Í 20 vikna sónar kom í ljós að í naflastreng er einungis 1 slagæð. Mér var sagt að meiri hætta væri á hjartagalla og því að krílið yxi ekki sem skyldi undir lok meðgöngunnar. Mér var sagt að hafa ekki miklar áhyggjur af þessu þar sem hjartað leit vel út í skoðuninni. Ég verð þó að viðurkenna að mér er brugðið. En mig langar til að vita meira og ég finn ekkert um þetta á netinu. Er eitthvað sem ég get gert? Hvað ef krílið vex ekki sem skyldi undir lok meðgöngunnar - yrði ég þá sett af stað fyrr?

Kveðja, áhyggjufull.


Sæl!

Það kemur nokkuð oft í ljós að aðeins ein slagæð er í naflastreng hjá fóstri. Stundum sést þetta á meðgöngunni en oft sést það ekki fyrr en barnið er fætt. Það er rétt að þetta tengist stundum hjartagöllum sem þurfa þá ekki endilega að vera alvarlegir en sjást flestir á meðgöngu ef vel er að þeim leitað. Eins hefur þetta svolitla fylgni við vaxtarseinkun á meðgöngu sem hægt er að fylgjast með með því að ómskoða síðustu vikurnar og mæla vöxtinn. Flest eru þessi börn þó alheilbrigð og eðlilega stór. Ef fram kemur vaxtarseinkun þarf stundum að setja fæðinguna af stað fyrr þó oftast þurfi það ekki. Aðalatriðið er að fylgjast með þessu og skoða vel með ómskoðunum sem greinilega hefur verið gert. Það er engin sérstök meðferð til við vaxtarseinkun og heldur ekkert sem þú gætir gert nema mæta í þær skoðanir sem eru ráðlagðar.

Kær kveðja,

María Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri fósturgreiningardeild LSH,
8. maí 2008.