Spurt og svarað

04. nóvember 2005

Opnar augun lítið, er 5 vikna

Sælar!

Ég á einn tæplega 5 vikna, sem lítið hefur opnað augun síðan hann kom í heiminn.  Hann opnar þó annað augað mun meira, samt sjaldan meira en u.þ.b. hálfan sm.  Hitt augað opnar hann kannski um 2-3 mm.  Tíminn sem hann heldur auganu/augunum opnum hefur heldur lengst frá fæðingu en minna aukist hvað mikið þau opnast.  Augnlokin virðast dálítið þrútin, þó heldur meira það sem minna opnast.  Ljósmæður sem ég hef talað við hafa litlar áhyggjur haft af þessu hingað til en ég er að velta fyrir mér hvenær er ástæða fyrir mig að hafa áhyggjur, þ.e við hvaða aldur fer þetta að verða óeðlilegt og ástæða til að láta barnalækni kíkja á augun.  Hann fékk sýkingu í augun fyrir 2 vikum sem meðhöndluð var með áburði og hefur ekkert borið á henni síðan, þannig að ekki getur hún verið vandamálið.

.............................................................................................

Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Mér finnst ekki eðlilegt, hve lítið barnið opnar augun. Svona augnsýkingar eru oft þrálátar og þarf stundum að meðhöndla oftar en einu sinni. Þú talar um þrota á augnlokum á barninu og meiri þrota á því auga sem hann opnar minna. Oft fylgir roði einnig og graftarútferð. Ertu viss um að sýkingin sé ekki til staðar enn þá eða hafi ekki tekið sig upp aftur? Það á að vera auðvelt að ganga úr skugga um það með því að taka strok úr auganu í ræktun, sem myndi vera gert á heilsugæslustöðinni þinni eða hjá barnalækni. Læknir þarf að skoða barnið og sjá hvað veldur. Til er fyrirbæri, sem nefnist Ptosis og einkennist af ónógri opnun aungloka. Stundum er gerð aðgerð á augnlokum til að laga það. Vonandi fæst botn í málið og gangi ykkur vel.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
4. nóvember 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.