Spurt og svarað

28. nóvember 2012

Óvær á nóttunni

Sælar.
Mig langaði að spyrja ykkur ljósmæðurnar því ég veit ekki hvert ég á að leita með þetta og fæ svo misjöfn svör frá kunningjum. Strákurinn minn er 8 mánaða og hann er rosalega vær á daginn. Tekur 2 lúra yfir daginn og eru þeir um það bil klukkutími til 1 og hálfur, en stundum lengur. Svo þegar kemur að því að hann eigi að fara sofa fyrir nóttina, um kl 20:30, þá tekur mig stundum 2 klukkutíma að svæfa hann, ef hann er ekki alveg orðinn alveg stjarfur af þreytu. Hann er vanur að fá að koma uppí til mín þegar hann vaknar á nóttunni til að drekka því hann grætur svo mikið ef ég legg hann í rúmið sitt eftir mjólkurdrykkjuna. Ég hef reynt að setja upp í hann snuðið, syngja fyrir hann og setja á taktfast hljóð úr svona bangsa sem á að róa börn en honum munar ekkert um að öskra í 2 klukkutíma ef hann fær ekki að koma uppí til mín. Ég hætti með hann á brjósti 6 mánaða því ég var ekki að mjólka nóg fyrir hann og er bara með hann á stoðmjólk og svo venjulegum mat. Hann verður alveg brjálaður ef ég legg hann í rúmið sitt ef hann er ekki steinsofnaður og sér að ég sé ekki á staðnum. Ég þarf alltaf að rugga honum í gríð og erg í fanginu, jafnvel labba með hann um gólf og fá hann til að sofna áður en ég legg hann í rúmið sitt. Svo vaknar hann örugglega 4 sinnum og stundum oftar yfir nóttina en ég gef honum alltaf bara einu sinni 150ml af volgri stoðmjólk yfir nóttina. Hann er kominn með 4 tennur, 2 uppi og 2 niðri þannig ég held að þetta sé ekki tanntökuvandamál. Hann lítur allavega út fyrir að finna ekki til líkamlega því um leið og ég kem að rugga honum þá verður hann fínn. Ég gef honum alltaf nóg að borða, kvöldmat um 6 leitið og eitthvað kvöldsnarl kl 7 og leyfi honum svo að týna uppí sig cheerios eða pasta eftir það og svo fær hann 150ml - 200ml af volgri stoðmjólk fyrir nóttina. Þannig ég efast um að hann sé svangur. Ég er búin að prufa að leyfa honum að vera með taubleyju til að halda á, litla mjúka bangsa, snuddur í báðum höndunum og ýmislegt annað til að láta hann finna fyrir einhverju öryggi en það virkar ekki. Mínar spurningar eru: - Hvað get ég gert til að fá hann til að vilja vera í rúminu sínu yfir alla nóttina? - Hvert er trixið til að fá börn til að sofna sjálf í rúminu sínu? - Er stoðmjólk ekki nógu fyllandi í magann? ætti ég frekar að gefa honum SMA mjólk eða NAN fyrir svefninn og á nóttunni? - Gæti þetta verið eitthvað óöryggi í honum? Ef svo er, hvað get ég gert til að láta hann finna fyrir öryggi?




Sæl
Takk fyrir að leita til okkar. Samkvæmt lýsingu þinni á vandanum virðist þú vera búin að reyna að koma í veg fyrir allt það sem ætti að trufla svefn litla drengsins þíns. Það eina sem mér dettur í hug er að hann gæti verið með kúamjólkuróþol eða eitthvað annað mataróþol. Mataróþol kemur oft út í óværð á kvöldin og að nóttu. Ef þú vilt athuga hvort hann er með kúamjólkuróþol þarf að taka alla mjólkurvöru út í að minnstakosti 2 vikur. Þá er ég ekki bara að tala um mjólk, skyr og ost, það þarf að lesa á allan tilbúinn mat því mjólk eða mjólkurprótein leynist víða í tilbúnum matvörum. T.d. er mjólk/mjólkurprótein í S.S. pylsum, sumum tegundum af kæfu og skinku! SMA og NAN inniheldur einnig kúamjólk en ekki Soja ungbarnamjólkin.
Það er erfitt að gefa þér önnur góð ráð í gengum fyrirspurn á þessum vef. Ljósmæður eru fróðar um marga hluti en svefnvandamál ná eiginlega út fyrir starfssvið ljósmæðra, þau geta verið erfið og oft verkefni fyrir sérfræðinga. Þú getur leitað til hjúkrunarfræðinga á Göngudeild barna með svefnvandamál  í síma 543-3700. Einnig getur þú leitað eftir upplýsingum, sent fyrirspurn eða fengið símaráðgjöf hjá Foreldraskólanum, foreldraskoli.is.
Ég má einnig til með að benda þér á grein hér á vefnum um svefnvenjur ungbarna.



Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. nóvember 2012





Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.