Spurt og svarað

30. mars 2005

Óvær eftir gjafir

Góðan daginn og takk fyrir frábæran vef.

Ég er í vandræðum með dóttur mína sem er 6 vikna og hefur alltaf verið á brjósti. Brjóstagjöfin hefur gengið vel og stúlkan þyngst vel þar til núna. Síðustu tvær vikurnar hefur hún verið óvær og sofið illa og er helst óvær eftir gjafir. Hún drekkur minna í einu en hún gerði áður og grætur eftir nokkurra mínútna sog. Þá læt ég hana ropa og hún vill ekki sjúga meira, grætur bara. Ég hef farið vel yfir matseðilinn minn sem hefur ekkert breyst undanfarið. Ég er alveg í öngum mínum yfir þessu, sérstaklega þar sem mér finnst hún ekki nærast nóg og ekki sofa vel. Hún rembist og stynur ef ég legg hana eftir gjöf og getur ekki fest svefn. Hún drekkur líka örar núna (á 2 tíma fresti í stað 4 tíma áður). Mér dettur helst í hug að skipta yfir í þurrmjólk en sé mjög eftir brjóstagjöfinni. Eldra barnið mitt var lengi á brjósti og engin vandræði þar. Hafið þið einhver ráð handa mér?

Móðir.

.........................................................................

Sæl og blessuð móðir.

Já, 6 vikna aldurinn er oft erfiður. Það er eins og oft verði þá einhver tímamót. Í þínu tilfelli læðist að manni sá grunur að þú sért með hratt losunarviðbragð. Dóttir þín er búin að vera að reyna hins ýmsu ráð til að hægja rennslið en er nú farin að pirrast og við það að gefast upp. Einnig gæti verið um að ræða formjólkurofeldi en þó vantar betri lýsingu á gjafamynstrinu til að vera viss. Óværð eftir gjafir og rembast og stynja gæti bent til þess að ég tala nú ekki um ef vindgangur er mikill og froðukenndar hægðir. Það að hún drekkur minna í einu er partur af þessum tímamótum sem ég nefndi þ.e.a.s hún er orðin sneggri að drekka sig sadda. En að sjúga of stutt þýðir að hún nær ekki eftirmjólkinni og það gerir hana pirraða og óværa. Já, Það eru til ýmis ráð handa þér. Fyrir það fyrsta þarftu að vera liggjandi í gjöfum allavega fyrstu 5 mínúturnar. Annar möguleiki er að halda þétt utan um brjóstið rétt fyrir ofan varir barnsins í fyrstu 5 mínúturnar. Ef vel til tekst fylgir lausnin á hinum vandamálunum í kjölfarið. Gjafirnar verða lengri og þá nær barnið eftirmjólk og þá líður því betur og verður værara. Passaðu þig á því að skipta aldrei um brjóst í gjöf. Notaðu sama brjóstið hvað sem á gengur. Þetta gildir á meðan þessi vandræði eru að líða hjá. Ef að það vantar bara eina góða gjöf til að komast yfir þennan þröskuld gæti verið sniðugt fyrir þig að nota hvítlaukstrikkið. Þá færðu þér vel að borða af hvítlauk (3-10 rif) í hádeginu og færð svo góða gjöf um eftirmiðdaginn a.m.k. eina, kannski fleiri. Ungbörn eru sólgin í hvítlauksbragðið og þetta trikk verkar á þau flest en yfirleitt bara einu sinni. Ekki hafa áhyggjur af matseðlinum þínum. Hann er ekki vandamálið. Borðaðu endilega allt sem þig langar í.

Hvernig í veröldinni þér dettur í hug að þurrmjólk leysi brjóstagjafavandamál er mér alveg hulið og ég vona að það hafi bara verið einhver skyndihugdetta. Þurrmjólk er oftar í því hlutverki að skapa brjóstagjafavandamál eða viðhalda þeim en ekki leysa þau. Þurrmjólk á auðvitað rétt á sér á réttum stað og réttum stundum en þú ert alls ekki stödd þar núna.

Með von um að vel til takist,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. mars 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.