Spurt og svarað

01. febrúar 2008

Pirringur á kvöldin

Halló halló!

Erum með eina hressa rúmlega 3 vikna gamla sem verður svolítið brjáluð á kvöldin og nóttunni.  Eftir því sem við höfum lesið hér þá er ansi eðlilegt að gjafirnar verði örari á kvöldin og feita mjólkin sé svona eftirsóknarverð. Hins vegar finnst okkur forvitnilegt hvað hún er pirruð við brjóstið, endist kannski ekki nema nokkrar mínútur í einu, stundum bara nokkrar sekúndur og verður þá alveg vitlaus á ástandinu og reygir sig og teygir.  Það er allavega eins og hún sé alveg brjáluð í brjóst en samt pirruð á því!?  Nóg er af mjólk í brjóstunum og það flæðir útúr henni.  Það virðist duga tímabundið að taka hana af brjóstinu og láta hana sitja í smástund og færa síðan aftur á brjóstið.  Hún virðist róast við þetta, en svo endurtekur munstrið sig aftur og aftur og hefur svolítið truflandi áhrif á brjóstagjöfina.  Á sama tíma er hún að æla miklu meira á kvöldin heldur en annars.  Yfir
daginn kemur voða lítið gubb, en á kvöldin kemur oft dágóður slatti úr henni.  Samt vill hún meira!  Yfirleitt sefur hún 2-3 góða dúra frá 3 á nóttunni og fram undir hádegi svo styttast þeir með kvöldinu niður í ca 2 og hálfan til 3 tíma, en svo kemur ástandið.  Annars hefur hún þyngst vel, er bráðlagleg og gáfuð eins og foreldarnir!

Spurningarnar eru þá þessar:
Hvers vegna þessi pirringur?  Hún er látin ropa vel, sett á öxl og í "undrastellinguna" á magann, virðist oft vera með loft í maganum, en stundum er erfitt að átta sig á því hvort hún sé svöng eða bara svona svakalega þreytt og pirruð þar.

Af hverju ælir hún í svona miklu magni á kvöldin?  Getur verið að hún sé búin að fá of mikið og skili svona af sér?

Svo bónusspurning:  þegar hún er lögð í vögguna og sofnar (ef það tekst þeas.) þá hrekkur hún oft upp nokkru síðar við einhvers konar bakflæði.  Við erum búin að setja ágætis halla á vögguna og hún er með örþunnan kodda til að reyna að halda þessu í skefjum, en samt virðist það ekki hjálpa.

Hvað er til ráða?

Með von um skjót svör,

PabbakveðjaSæll og blessaður.

Þú virðist nú vera búin að kynna þér vel þessi mál og þú ert alveg á réttri leið.

Þetta hljómar eins og alveg eðlileg hegðun hjá barninu. Eins og þú ert búin að komast að er mjólkin öðruvísi samsett á kvöldin og þau sækja gjarnan í að fá margar stuttar gjafir á einhverju tímabili seinnihluta dagsins. Það kemur þó líka inn í myndina að barnið getur verið orðið þreytt eftir daginn bara rétt eins og við. Það pirrar börn mismikið að verða þreytt. Sum þurfa sérstakan viðbúnað á þeim tíma. Það getur gefist vel að hafa sérstaklega þægilegt umhverfi fyrir þau. Hafa hlýtt í herberginu, hljótt, hálfrökkvað. Spila þægilega músik, syngja eða fara með barninu í gott bað.

Miklar ælur benda til þess að hún fái vel af mjólk og líklega tekur hún heldur mikið og þarf því að skila meiru. Það er bara partur af pirringnum á þessum tíma.

Varðandi bónusspurninguna þá myndi hún sennilega sofa betur ef haldið væri á henni lengur eftir að hún sofnar áður en hún er lögð niður ef þess þarf.

Gangi þér sem best.          

Katrín Edda Magnúsdóttir,
brjóstagjafaráðgjafi og ljósmóðir.
2.febrúar 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.