Rauðar tægjur í hægðum hjá 6 vikna

01.05.2008

Í morgun var ég að skipta á litla guttanum mínum sem varð 6 vikna núna á mánudaginn. Sá ég þá að nokkrar rauðar tægjur voru í bleyjunni sem hann hafði kúkað í. Hann er bara á brjósti og rembist oft mikið þegar hann er að losa sig við hægðir og loft. Oft hjálpum við honum að losa með því að „pumpa“ fæturnar og þrýsta þannig á ristilinn og hjálpar það oft. Hann er annars vær og góður og hefur þyngst eðlilega hingað til. Fær stundum magapílur en það gengur yfirleitt hratt yfir. Er þetta eitthvað sem ég ætti að hafa áhyggjur af?

Bestu kveðjur, Stella Dóra.


Sæl og blessuð!

Það geta stundum komið rauðar tægjur með hægðum vegna þess að stundum springur slímhúðin örlítið þegar barnið hefur hægðir og það blæðir þá lítillega með hægðunum. En það er erfitt að fullyrða um svona hluti nema skoða bleyjuna og skoða barnið - svo ég ráðlegg þér að ræða við hjúkrunarfræðinginn þinn í ungbarnaverndinni og um þetta og ef þetta heldur áfram þá endilega að fara með barnið til læknis.

Gangi ykkur vel,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. maí 2008.