Spurt og svarað

04. júlí 2007

Rauður bossi

Góðan daginn og takk fyrir frábæran og fróðlegan vef.

Ég er með einn tveggja vikna. Hann dafnar ótrúlega vel og drekkur og kúkar vel - kannski einum of!  Málið er að hann kúkar margoft yfir daginn, sem er fínt, nema að litli bossinn hans er ekki alveg að höndla það og er alveg eldrauður og sár.  Ég byrjaði á að nota Penaten á þetta en það virtist ekki bera tilætlaðan árangur. Þá var mér bent á að prófa Lansinoh brjóstakrem, sem og ég gerði en mér finnst þetta ekki vera að virka. Ég leyfi honum að vera berum eins mikið og ég get og þá líður honum yfirleitt rosa vel, sérstaklega ef hann fær að vera á mallanum með bossann út í loftið.  Þegar hann er ber þarf ég að þurrka bossann öðru hvoru því hann kúkar það oft og er kúkurinn mjög froðukenndur (liggur við að það sé eins og hann sé bullandi).

Þá eru spurningarnar:

  • Er eðlilegt að kúkurinn sé svona froðukenndur eða getur verið að það sé ástæðan fyrir sára rassinum? 
  • Gæti það þá verið eitthvað sem ég er að borða og hvað gæti það þá helst verið? (ég borða mjög venjulegan mat, ekkert sérfæði)
  • Getið þið mælt með einhverju kremi eða smyrsli sem er gott á svona öðru en því sem ég hef verið að nota?

Innilegar þakkir, Sirrý.


Sæl Sirrý og takk fyrir að leita til okkar. 

Það er mjög gott eins og þú ert að gera að leyfa drengnum þínum að vera mikið með beran bossann.  Bestu kremin við sárum og rauðum bossa eru krem með zink pasta í.  Hafa ber þó í huga að ekki séu nein ilmefni í kreminu.  Í Penaten kremi eru ilmefni þannig að það getur verið ertandi og valdið sviða. Það er heldur ekki mælt með Lansinoh kremi einu og sér, því það er eingöngu fita og húð getur soðnað undan svona feitu kremi. Einnig hafa sumir einstaklingar ofnæmi fyrir þessu kremi þar sem það er ullarfita í því. Hins vegar er hægt að blanda Lansinoh kremi við zink pasta og bera það á.  Það er líka til krem sem heitir AD-krem með zink pasta og fullt af öðrum kremum, sem eru góð við sárum og rauðum bossa, sem þú getur fengið upplýsingar um í næsta apóteki.  Ég myndi ráðleggja þér að bera vel af kremi á bossann og ef hann er með sár að reyna þá að þekja þau með kremi.  Passa síðan að þvo kremið vel af áður en þú berð það aftur á í næsta skipti.  Varðandi hægðirnar hjá honum þá er alveg eðlilegt að hægðirnar séu froðukenndar. Það getur hugsanlega tengst mataræðinu hjá þér,þannig að það valdi miklu lofti hjá honum og því verði þær svona.  Ekkert þó til að hafa áhyggjur af.

Ég vona að þetta svari spurningu þinni og að hann komist fljótt yfir þetta vandamál.  Gangi ykkur vel.

Kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
4. júlí 2007.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.